Pálmi Rafn Pálmason, miðjumaður Lilleström í Noregi, á fund með forráðamönnum FH á morgun, samkvæmt heimildum Vísis.
Húsvíkingurinn er líklega á leið heim úr atvinnumennsku og er eftirsóttur, en auk FH-inga eru KR, Valur og KA spennt fyrir því að fá hann í sínar raðir.
Pálmi Rafn spilaði síðast hér heima með Val 2008 en fór á miðju sumri til Stabæk þar sem hann dvaldi í fjögur ár. Hann hefur undanfarin þrjú tímabil leikið með Lilleström við góðan orðstír, en hann skoraði níu mörk í 27 leikjum í ár.
Samningaviðræður hans við Lilleström hafa gengið illa og eru litlar líkur á að Pálmi Rafn spili undir stjórn Rúnar Kristinssonar hjá liðinu á næsta ári.
FH er nú þegar búið að fá til sín tvo öfluga leikmenn, en það keypti Þórarinn Inga Valdimarsson frá ÍBV og samdi við Finn Orra Margeirsson, fyrirliða Breiðabliks.
