Innlent

Hnífstungan á Hverfisgötu: Tveir hinna handteknu látnir lausir

Bjarki Ármannsson skrifar
Lögregla handtók seint í gær fjóra menn í tengslum við árásina.
Lögregla handtók seint í gær fjóra menn í tengslum við árásina. Mynd/Þorgeir Ólafsson
Tveir þeirra fjögurra manna sem handteknir voru í gærkvöldi í tengslum við hnífstungu á Hverfisgötu hafa verið látnir lausir. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt fram kröfu um gæsluvarðhald yfir hinum tveimur.

Þetta staðfestir Friðrik Smári Björgvinsson yfirlögregluþjónn í samtali við Vísi. Lögregla lýsti fyrr í dag eftir fimmta manninum vegna rannsóknar málsins, hinum 21 árs Arkadiusz Lech Ustaszewski, en Friðrik segir erfitt að segja hvort atburðarásin í málinu sé farin að skýrast. Rannsóknin sé þó enn í „fullum gangi.“

Sá særði var í gærkvöldi fluttur á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi, þar sem hann gekkst undir aðgerð. Hann var sagður þungt haldinn og í lífshættu í morgun en ekki hafa fengist neinar frekari upplýsingar um ástand hans.



Uppfært kl. 21:55: Gæsluvarðhaldsúrskurður var staðfestur yfir mönnunum tveimur sem enn eru í haldi. Þeir munu sæta gæsluvarðhaldi til 8. desember vegna rannsóknarhagsmuna.

Þær upplýsingar fengust hjá vakthafandi lækni á gjörgæslu að sá særði sé enn í lífshættu. Honum er haldið sofandi í öndunarvél.


Tengdar fréttir

Í lífshættu eftir hnífstungu á Hverfisgötu

Karlmaður liggur nú þungt haldinn og í lífshættu, að sögn lækna, á gjörgæsludeild Landspítalans eftir að hafa orðið fyrir hnífstungu á Hverfisgötu í gærkvöldi. Lögreglan handtók fjóra karlmenn á vettvangi, grunaða um að hafa veitt manninum lífshættulega áverka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×