Sport

Spilaði áfram eftir að hnéskelin fór úr lið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gerald McCoy, varnarmaður Tampa Bay í NFL-deildinni, er mikill nagli.
Gerald McCoy, varnarmaður Tampa Bay í NFL-deildinni, er mikill nagli. Vísir/AP
Gerald McCoy, varnarmaður Tampa Bay Buccaneers í NFL-deildinni, hélt áfram að spila í leik liðsins gegn Detroit Lions um helgina þrátt fyrir óhugnaleg meiðsli.

McCoy var tekinn inn í búningsklefa snemma leiks en hnéskelin mun þá hafa farið úr lið, eftir því sem fram kemur í fjölmiðlum vestanhafs. Henni var hins vegar kippt aftur í liðinn, McCoy sneri aftur og kláraði leikinn.

Sjálfur vildi hann lítið segja um málið eftir leikinn. „Þetta var sárt,“ sagði McCoy og vildi ekki fara nánar út í þá sálma.

McCoy er á sínu fjórða ári í deildinni og skrifaði fyrr á tímabilinu undir nýjan samning sem er sá stærsti sinnar tegundar hjá leikmanni í hans stöðu. Tímabilið hefur engu að síður verið erfitt fyrir Tampa Bay og liðið tapað ellefu af þrettán leikjum sínum til þessa.

Tampa Bay tapaði fyrir Detroit um helgina, 34-17, og útilokaði þar með alla möguleika á sæti í úrslitakeppninni þetta árið.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×