Viðskipti innlent

Kári þarf að greiða reikninginn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kári Stefánsson og Karl Axelsson.
Kári Stefánsson og Karl Axelsson.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, þarf að greiða Karli Axelssyni, lögmanni og settum hæstaréttardómara, tvær milljónir króna. Um er að ræða reikning sem Kári hafði neitað að greiða Karli vegna starfa þess síðarnefnda fyrir forstjórann. Stefndi Kári Karli vegna þessa og taldi reikninginn of háan. Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Kári krafðist þess að úrskurður Lögmannafélagsins um þóknun Karls yrði felldur úr gildi og að hæstaréttarlögmaðurinn greiddi allan málskostnað. Kári þarf hins vegar að greiða 470 þúsund krónur í málskostnað.

Við aðalmeðferð málsins sagðist Kári hafa ráðið Karl í vinnu og að þeir hafi gert með sér samkomulag um það. Reikningurinn hafi hins vegar ekki passað við það samkomulag þar sem fulltrúi Karls, Þórhallur Bergmann, var skráður fyrir 150 tímum af vinnunni en Karl fyrir 17 tímum.

Kári sagði að Karl hefði svo upplýst sig um að hann væri hættur að flytja mál fyrir héraði. Aðspurður um hverju hann hefði þá svarað sagði Kári:

„Ég benti honum á að við hefðum gert með okkur samkomulag um að hann myndi flytja mitt mál. Þetta voru svona nokkuð hvöss samskipti.“

Einum til tveimur dögum síðar hafi hann fengið bréf þar sem kom fram að Karl hefði sagt sig frá málinu vegna misklíðar á milli þeirra.

Kári í héraðsdómi ásamt Sigurði G. Guðjónssyni, lögmanni sínum.Vísir/SKH
Kári ósáttur við kostnaðinn og laun fulltrúans

Karl Axelsson gaf einnig skýrslu fyrir dómi. Fram kom í máli hans að samskipti við arkitektastofu, sem hafði undir höndum öll gögn er vörðuðu málið, hafi verið mjög slæm. Það hafi gengið erfiðlega að byggja upp málið vegna þess en það hafi þó tekist á endanum.

Þá sagði Karl að Kári hefði verið ósáttur við ýmislegt.

„Hann var ósáttur við kostnað málsins, fannst laun fulltrúa míns of mikil og svo var hætt að borga reikninga.“

Karl sagðist hafa ákveðið að slíta viðskiptasambandinu við Kára eftir að sá síðarnefndi hafði skellt tvisvar á sig, en Kári sagði við skýrslutöku að símasamband hefði rofnað.

Karl sagði það ekki rétt að hann hefði tilkynnt Kára að hann væri hættur að flytja mál í héraði. Þá væri það hefðbundið að fleiri en einn lögmaður kæmu að undirbúningi máls. Það hefði einnig verið þannig í þessu tilfelli og aldrei hafi staðið annað til en að hann sjálfur myndi flytja málið.

Taldi að um mistök væri að ræða

Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Kára, vakti athygli á því að í þingbók hafi fulltrúinn verið bókaður á fyrirtökur í málinu en ekki Karl sjálfur. Karl gat ekki svarað hvers vegna það væri en taldi líklegt að um mistök væri að ræða við ritun þingbókarinnar.

Umræddur fulltrúi bar líka vitni í málinu. Hann sagði einnig að samskipti við arkitektastofuna hefðu gengið brösuglega og að verkaskipting milli sín og Karls hefði verið með eðlilegum hætti. Aldrei hefði annað komið til greina en að Karl myndi flytja málið fyrir héraði þó að fulltrúinn hefði mætt í þinghöld fyrir hans hönd. Fulltrúinn taldi einfaldlega að mistök hefðu verið gerð við ritun þingbókanna þar sem hann væri skráður með málið.

Lögmaður Kára þjarmaði að fulltrúanum og spurði hvers vegna hann sem „góður lögmaður“ hefði ekki gert athugasemdir við þingbækur ef villur væri að finna þar. Fulltrúinn sagðist ekki hafa tekið eftir mistökunum.


Tengdar fréttir

Kári Stefánsson neitar að borga reikninginn

Aðalmeðferð í máli Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, gegn Karli Axelssyni, hæstaréttarlögmanni hjá lögmannsstofunni Lex, fór fram fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Kári stefnir lögmanninum sínum

Kári Stefánsson hefur stefnt lögmanninum Karli Axelssyni til að fá hnekktum úrskurði um þóknun sem Kári skuldar lögmannsstofu Karls.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×