Enski boltinn

Navas: Sigrar City geta hjálpað Agüero að vinna Gullknöttinn

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Navas og Agüero fagna með Edin Dzeko
Navas og Agüero fagna með Edin Dzeko vísir/getty
Argentínski framherjinn Sergio Agüero hefur átt frábært ár fyrir Englandsmeistara Manchester City en var þó ekki einn þeirra þriggja sem eiga möguleika á Gullknettinum, Ballon d‘Or, sem knattspyrnumaður ársins.

Jesus Navas samherji Agüero hjá City vill hjálpa félaga sínum að eiga möguleika á þessum eftirsóttu en umdeildu verðlaunum með því að vinna fleiri stóra titla með félagsliði sínu.

„Að leika vel í deildinni heima með félagi sínu og leika frábærlega og fara langt í Meistaradeild Evrópu hefur mikið að segja þegar sigurvegari Gullknattarins er valinn,“ sagði Spánverjinn Navas við fjölmiðla í Manchester.

„Við vinnum allir af krafti að því marki að marki að koma City ofar í deildinni. Við reynum allir að búa eins mörg færi til fyrir hann og við getum.

„Það er frábært að vera með Sergio í okkar liði. Leikmaður eins og hann getur ráðið úrslitum en við erum orðnir mun þéttari sem lið. Þess vegna náum við betri úrslitum nú.

„Fyrstu tveir, þrír sigrarnir gáfu okkur mikið sjálfstraust. Það hjálpar í framhaldinu,“ sagði Navas.

Agüero meiddist þegar Manchester City lagði Everton að velli í gær en óvíst er með alvarleika meiðslanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×