Enski boltinn

Eiður Smári búinn að skrifa undir hjá Bolton

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári í leik með Club Brugge á síðustu leiktíð.
Eiður Smári í leik með Club Brugge á síðustu leiktíð. Vísir/AFP
Eiður Smári Guðjohnsen skrifaði í dag undir samning við enska B-deildarliðið Bolton samkvæmt heimildum Vísis. Samningurinn gildir til loka tímabilsins.

Þetta hefur legið í loftinu síðustu daga en Eiður Smári hefur æft með Bolton undanfarnar vikur. Neil Lennon, stjóri Bolton, sagði á blaðamannafundi í morgun að það væri nánast frágengið að Eiður myndi semja við félagið.

Eiður Smári snýr þar með aftur til síns gamla félags en hann lék með því frá 1998 til 2000. Þaðan var hann seldur til Chelsea þar sem hann var í sex ár, áður en hann samdi við stórlið Barcelona.

Eiður hefur síðan þá leikið með Monaco, Tottenham, Stoke, Fulham, AEK Aþenu, Cercle Brugge og Club Brugge en hann hefur verið samningslaus síðan í sumar, er hann yfirgaf síðastnefnda félagið.

Atvinnumannaferilinn hóf hann aðeins sautján ára gamall er hann gekk í raðir PSV í Hollandi en alvarleg meiðsli settu strik í reikninginn og sneri hann aftur í KR sumarið 1998 áður en hann hélt utan til Bretlandseyja.

Eiður Smári er 36 ára gamall og á að baki 78 leiki með landsliði Íslands. Lennon hefur áður sagt að Eiður Smári hafi hug á að spila áfram með íslenska landsliðinu.

Bolton er sem stendur í átjánda sæti ensku B-deildarinnar með 21 stig að loknum nítján umferðum. Liðið mætir Reading um helgina en óvíst er hvort að Eiður Smári fái leikheimild með Bolton í tæka tíð.


Tengdar fréttir

Eiður Smári verður ekki leikmaður FCK

Eiður Smári Guðjohnsen, markahæsti leikmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu frá upphafi, mun ekki ganga til liðs við danska úrvalsdeildarliðið FC København




Fleiri fréttir

Sjá meira


×