Enski boltinn

Færri mínútur á milli marka hjá Agüero en hjá Henry og Nistelrooy

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ekki amalegur félagsskapur.
Ekki amalegur félagsskapur. vísir/getty
Sergio Agüero, framherji Manchester City, heldur áfram að fara á kostum á tímabilinu, en hann skoraði tvö mörk í 4-1 sigri meistaranna gegn Sunderland í gærkvöldi.

Þar með er Argentínumaðurinn búinn að skora fjórtán mörk í deildinni til þessa, en hann er markahæstur; búinn að skora þremur mörkum meira en brasilíski Spánverjinn Diego Costa hjá Chelsea.

Mörkin tvö hjá Agüero voru númer 65 og 66 hjá honum í úrvalsdeildinni í 101. leiknum, en hann hefur nú skorað mark á 108 mínútna fresti. Þetta eru fæstar mínútur á milli marka í sögu úrvalsdeildarinnar.

Argentínumaðurinn skýtur með því tveimur af allra bestu framherjum úrvalsdeildarinnar í sögu hennar ref fyrir rass; Thierry Henry og Ruud van Nistelrooy.

Henry skoraði 176 mörk í 258 leikjum fyrir Arsenal og setti eitt mark á 122 mínútna fresti. Nistelrooy skoraði 95 mörk í 150 úrvalsdeildarleikjum fyrir Manchester United, en hann skoraði mark á 128 mínútna fresti.

Mörk Agüero hafa hjálpað meisturunum að halda í við Chelsea í toppbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar og þá hélt hann lífi í Meistaradeildardraumum liðsins í síðustu viku með magnaðri þrennu gegn Bayern München.

Í heildina er Agüero búinn að skora 19 mörk í 20 leikjum það sem af er á tímabilinu. Hann er búinn að skora 14 mörk í 14 leikjum í úrvalsdeildinni og fimm mörk í fimm leikjum í Meistaradeildinni. Honum mistókst bara að skora í deildabikarnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×