Að þessu sinni steinlágu svartþrestirnir á heimavelli gegn New Hampshire-háskólanum, 72-56.
Leikmenn New Hampshire jörðuðu Brooklyn-menn með þriggja stiga körfum, en þeir hittu úr tólf slíkum og voru með 45 prósent nýtingu fyrir utan.
Martin Hermannsson og Elvar Friðriksson voru bestir í liði heimamanna. Martin var stigahæstur með tólf stig auk þess sem hann tók fjögur fráköst og gaf fjórar stoðsendingar.
Njarðvíkingurinn Elvar skoraði næst mest eða ellefu stig og tók að auki þrjú fráköst, gaf þrjár stoðsendingar og stal einum bolta líkt og Martin.
Hér að neðan má sjá brot úr leiknum þar sem Martin og Elvar sýna nokkur flott tilþrif. Martin er númer 24 og Elvar númer 10.
Á jóladag verður sýnd mynd á Stöð 2 Sport um líf og störf þeirra Martins og Elvars í LIU-háskólanum.