Enski boltinn

Sonur Guðna Bergs staðfestir að Eiður Smári sé búinn að skrifa undir

Eiður Smári Guðjohnsen og Guðni Bergsson fagna marki með Bolton.
Eiður Smári Guðjohnsen og Guðni Bergsson fagna marki með Bolton. Vísir/Getty
Eiður Smári Guðjohnsen hefur skrifað undir samning hjá enska b-deildarliðinu Bolton samkvæmt frétt á fótbolti.net en Bolton hefur þó ekki staðfest fréttirnar á heimasíðu sinni.

Eiður Smári hefur ekkert spilað síðan síðasta vor en hann getur gengið strax til liðs við Bolton þar sem hann var án félags. Eiður Smári lék síðast með belgíska liðinu Club Brugge.

Bergur Guðnason, sonur Guðna Bergssonar fyrrum leikmanns Bolton, staðfestir á twitter-síðu sinni að Eiður Smári sé búinn að skrifa undir samninginn.

Eiður Smári hefur verið að æfa með liði Bolton síðustu daga og þá spilaði hann varaliðsleik gegn Bury í síðustu viku.

Bolton spilar næst við Reading á laugardaginn og Eiður Smári ætti að geta komið við sögu í þeim leik takist mönnum að ganga frá öllum pappírum.

Þetta er í annað skiptið sem Eiður Smári gengur til liðs við Bolton en skoraði 19 mörk í 59 leikjum með félaginu frá 1998 til 2000 áður en hann var seldur til Chelsea.

Þá var Eiður Smári aðeins tvítugur en nú er hann mættur aftur til Bolton nýorðinn 36 ára gamall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×