Viðskipti innlent

Aserta-málið: Fjórmenningarnir sýknaðir

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Ákærðu og verjendur þeirra í Héraðsdómi Reykjaness við aðalmeðferð málsins í nóvember síðastliðnum.
Ákærðu og verjendur þeirra í Héraðsdómi Reykjaness við aðalmeðferð málsins í nóvember síðastliðnum. Vísir/GVA
Sakborningarnir fjórir í Aserta-málinu svokallaða voru sýknaðir í Héraðsdómi Reykjaness í dag. Það eru þeir Karl Löve Jóhannsson, Gísli Reynisson, Markús Máni Michaelsson Maute og Ólafur Sigmundsson en þeir voru ákærðir fyrir umfangsmikið gjaldeyrisbrask á sjö mánaða tímabili árið 2009. Ríkissjóður var dæmdur til að greiða allan sakarkostnað. Þeir voru ekki viðstaddir dómsuppkvaðninguna í dag.

Fjórmenningarnir voru ákærðir fyrir brot á lögum um gjaldeyrisviðskipti um einkahlutafélagið Aserta á tímabilinu 25. mars til 2. nóvember 2009 en í ákærunni segir að hvorki hafi verið lögmæt heimild né leyfi frá Seðlabanka Íslands fyrir viðskiptunum.

Þeir neituðu allir sök við þingfestingu málsins og aðalmeðferð. Aðalmeðferð fór fram í nóvember en þar var ákveðið að falla frá einum lið ákærunnar er sneri að ólögmætum fjármagnsflutningum.  Þá tók meðferðin skemmri tíma en áætlað var þar sem enginn ágreiningur var um viðskipti sem Aserta átti á þessum tíma, viðskiptavini né upphæðir og var stór partur vitna afboðaður vegna þessa. Málið hefur tekið afar langan tíma, eða hátt í fimm ár. Málinu var vísað frá dómi í héraði en Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að taka ætti málið til meðferðar á nýjan leik. Fjórmenningarnir sögðust allir vera orðnir langþreyttir á þessari löngu bið. Mannorð þeirra bíði hnekki og lífsviðurværi þeirra svo gott sem farið.  


Tengdar fréttir

Aserta-málið verður tekið efnislega fyrir

Hæstiréttur sneri í dag við frávísun Héraðsdóms Reykjaness í Aserta-málinu svokallaða þar sem Karli Löve Jóhannssyni, Gísla Reynissyni, Markúsi Mána Michaelssyni Maute og Ólafi Sigmundssyni er gefið að sök að hafa brotið gjaldeyrislög.

Aserta-málið: Málinu vísað frá

Gjaldeyrismáli sérstaks saksóknara gegn Karli Löve Jóhannssyni, Gísla Reynissyni, Markúsi Mána Michaelssyni Maute og Ólafi Sigmundssyni var vísað frá héraðsdómi í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×