Viðskipti innlent

Höfðar nýtt mál gegn Seðlabanka og fer fram á 1,9 milljarða

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Heiðar Már Guðjónsson hagfræðingur og fjárfestir er eini eigandi Ursusar ehf.
Heiðar Már Guðjónsson hagfræðingur og fjárfestir er eini eigandi Ursusar ehf.
Ursus ehf., félag Heiðars Más Guðjónssonar, hefur höfðað nýtt mál á hendur Seðlabankanum og Eignasafni Seðlabankans (ESÍ) vegna söluferlisins á Sjóvá og fer fram á 1,9 milljarða króna í skaðabætur. 

Fyrra mál hefur verið fellt niður en í því máli var gerð talsvert lægri skaðabótakrafa eða 1,4 milljarðar króna. Heiðar er eini eigandi Ursusar ehf. með 100% hlutafjár. 

Stefnan er byggð á því að bindandi samkomulag hafi tekist milli félags Heiðars og Seðlabankans og ESÍ hinn 10. júlí 2010 um kaup á tilteknum hlutabréfum í Sjóvá auk réttar til kaupa á frekari hlutum á fyrirfram ákveðnu gengi en Seðlabankinn og ESÍ hafi með saknæmum hætti sammælst um að ljúka ekki viðskiptunum eins og samið var um.

Sjóvá var í opnu söluferli á þessum tíma eftir að hafa runnið í faðm ríkisins eftir hrunið. Ríkissjóður þurfti að leggja því til fjármuni til að tryggja rekstur þess og leysti til sín félagið samhliða því. Rann það í kjölfarið inn í ESÍ. 

Félag Heiðars gerir kröfu um að það verði eins sett og ef viðskiptin hefðu átt sér stað en virði Sjóvár hefur aukist verulega eftir að það var selt og hefur félag Heiðars farið á mis við verulegan hagnað sem nú er krafist bóta fyrir. 

Byggja á því að Heiðar hafi sjálfur fallið frá kaupunum

Í fyrra máli, sem fellt hefur verið niður, byggði Seðlabankinn á því að Heiðar hefði sjálfur fallið frá söluferlinu eftir að það dróst á langinn í kjölfar rannsóknar gjaldeyriseftirlits Seðlabankans á meintum ólöglegum viðskiptum Ursusar ehf. með aflandskrónur, í þessu tilviki íslenskar krónur á reikningum erlendra aðila á Íslandi. 

Millifærsla á íslenskum krónum milli reiknings í eigu erlends fjármálafyrirtækis og reiknings viðskiptavinar hjá fjármálafyrirtæki hér á landi, innlendum sem erlendum aðila, telst til fjármagnshreyfingar á milli landa og því óheimil. Ursus nýtti sér ívilnun sem veitt hafði verið erlendum fjármálafyrirtækjum til að kaupa fjármálagerning (t.d. skuldabréf) í íslenskum krónum og greiða fyrir af svokölluðum Vostro-reikningi kaupandans, þ.e. hins erlenda fjármálafyrirtækis. Málið var rannsakað af gjaldeyriseftirlitinu og vísað áfram til efnahagsbrotadeildar RLS en fellt niður af ríkissaksóknara hinn 27. febrúar 2012. 

Í greinargerð Seðlabankans vegna fyrri málshöfðunar kemur fram að rannsókn gjaldeyriseftirlitsins á meintum ólöglegum viðskiptum með aflandskrónur hefði ekki haft nein áhrif á söluferli Sjóvár þar sem fjárfestahópurinn, með Heiðar í fararbroddi, hefði áður sagt sig frá söluferlinu og þar af leiðandi hugsanlegum kaupum á Sjóvá. Félag Heiðars byggir hins vegar á því að kominn hafi verið á bindandi samningur milli aðila hinn 10. júlí 2010, eins og áður segir. 

Ítarlegir skilmálar í samkomulagi um kaup

Í nýrri stefnu eru raktir ítarlegir skilmálar samkomulagsins frá 10. júlí og að ekkert hafi staðið því í vegi að ljúka viðskiptunum á grundvelli þeirra og þá bendi ekkert til annars en að FME hefði samþykkt viðskiptin fyrir sitt leyti. Í fyrsta lagi hafi félag Heiðars eitt og sér ekki verið að eignast virkan eignarhlut í Sjóvá, heldur með hópi annarra og auk þess sé hann vel hæfur til eignarhaldsins í skilningi þeirra skilyrða sem koma fram í lögum um fjármálafyrirtæki. 

Þá hafi enginn fyrirvari verið í samþykktum skilmálum um stöðu eftirlitsmála hjá Seðlabankanum vegna málsins sem síðar var fellt niður. 

Hinn 22. nóvember 2010 kvartaði Heiðar til umboðsmanns Alþingis vegna málsmeðferðar Seðlabankans og ESÍ við söluna á Sjóvá.

Umboðsmaður hefur enn ekki skilað áliti í málinu, nú rúmum fjórum árum síðar. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×