Viðskipti innlent

Pizzurnar seldust upp á tveimur tímum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Eigendur Pizza 67 voru klárir í slaginn en áttu ekki alveg von á að pizzurnar myndu seljast upp á tveimur tímum.
Eigendur Pizza 67 voru klárir í slaginn en áttu ekki alveg von á að pizzurnar myndu seljast upp á tveimur tímum. Mynd/Pizza 67 í Grafarvogi
Pizza 67 opnaði vægast sagt með látum í Langarima 21 í Grafarvogi í kvöld. Pizzurnar seldust upp á um tveimur tímum, að sögn Kristjáns Þórs Jónssonar, betur þekktur sem Kiddi Bigfoot, en hann er einn af eigendum staðarins.

Hann segir viðbrögðin hafa verið mun meiri en hann átti von á.

„Við töluðum við menn með mikla reynslu úr pizzubransanum og þeim fannst við nokkuð brattir að vera búnir að hnoða hér í 500 hveitikúlur. En það er sem sagt bara allt búið og nú erum við bara að þrífa hérna, með tárin í augunum yfir að geta ekki þjónustað þá sem vilja kaupa pizzur í kvöld.“

Kiddi segir þetta svona „jákvæða sorg“; það sé auðvitað alltaf gaman þegar það sé mikið að gera en leiðinlegt að pizzurnar hafi klárast.

„Nú látum við bara deigið hefast fyrir morgundaginn en við ætlum að vera djarfari og hnoða í fleiri kúlur en í dag. Við ætlum svona að reyna að hafa vaðið fyrir neðan okkur svo það seljist ekki upp eins og í kvöld.“

Pizza 67 í Grafarvogi opnar sem sagt aftur á morgun klukkan 17, fyrir þá sem náðu ekki í pizzu í kvöld.


Tengdar fréttir

Grafarvogur fær "nýjan“ pizzustað

Á sínum tíma voru starfræktir 26 Pizza 67 staðir í sex löndum en undanfarin ár hafa þeir verið þrír. Tveir í Færeyjum og einn í Vestmannaeyjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×