Sport

225 íþróttamenn frá 39 löndum grunaðir um lyfjamisnotkun

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Valentin Balakhnichev er forseti frjálsíþróttasambands Rússlands.
Valentin Balakhnichev er forseti frjálsíþróttasambands Rússlands. Vísir/Getty
Alvarlegar ásakanir hafa komið fram um að Alþjóðafrjálsíþróttasambandið, IAAF, hafi ekki fylgt eftir grunsamlegum niðurstöðum lyfjaprófa á þriðja hundrað frjálsíþróttamanna.

Ásakanirnar komu fyrst fram í heimildaþætti á þýsku sjónvarpsstöðinni WDR þar sem því er haldið fram að sýni 225 íþróttamanna frá 39 löndum hafi innihaldið óvenjuleg blóðgildi. Heimildamaður WDR, sem er sagður hafa lengi starfað fyrir lyfjaeftirlit IAAF, segir að niðurstöðunum hafi ekki verið fylgt eftir á fullnægjandi hátt.

Langflestir úr þessum hópi koma frá Rússlandi eða 58 talsins. Valentin Blakahnichev, forseti frjálsíþróttasambands Rússlands, sagði í síðustu viku að ásakanir WDR væru lygar en hann hefur nú ákveðið að stíga til hliðar sem gjaldkeri IAAF.

Breska blaðið The Telegraph segir að meðal þeirra 225 íþróttamanna sem mældust með óeðlileg blóðgildi eru þrír gullverðlaunahafar frá Ólympíuleikunum í Lundúnum árið 2012. Eins og sjá má hér koma íþróttamennirnir frá löndum í sex heimsálfum, þar af 25 frá Kenía, tólf frá Spáni, fjórir frá Bandaríkjunum og þrír frá Bretlandi en í þeim hópi mun vera einn af þekktustu frjálsíþróttastjörnum Breta.

Málið er nú til rannsóknar bæði hjá IAAF og alþjóðlega lyfjaeftirlitinu WADA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×