Innlent

Læknar ekki bjartsýnir á að samningar náist fyrir áramót

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Læknar eru ekki bjartsýnir á að það takist að semja við ríkið í kjaradeilu þeirra fyrir 5. janúar þegar verkfallsaðgerðir hefjast á ný. Formaður Læknafélagsins á von á að fleiri læknar segi upp fyrir áramótin.

Eftir tíu daga hefjast þriggja mánaða verkfallsaðgerðir lækna ef ekki verið búið að leysa kjaradeilu þeirra og ríkisins fyrir þann tíma. Verkfallsaðgerðirnar eru umfangsmeiri en þær sem læknar hafa þegar gripið til. Þannig munu skurðstofur Landspítalans nær lokast og ljóst er að verkfallið kemur til með að hafa mikil áhrif á heilbrigðiskerfið.

Engir samningafundir hafa verið um jólin og er næsti fundur í deilunni ekki boðaður fyrr en á mánudaginn.

Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands, segir samningaviðræðurnar ganga hægt þessa dagana og að sitt fólk ekki bjartsýnt á að það takist að semja fyrir 5. janúar. „Það ber mikið á milli enn og það þarf auðvitað að brúa það bil einhvern veginn,“ segir hann.

Þegar hafa læknar sagt upp vegna kjaramálanna og á Þorbjörn á von á að fleiri segi upp fyrir áramótin. Hann segir lækna nú undirbúa verkfallsaðgerðirnar í janúar. „Það er mikill hugur í læknum og menn telja að þetta sé algjör nauðvörn og núna sé að duga en ekki drepast,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×