Erlent

Kommúnisminn mun ekki víkja á Kúbu

Atli Ísleifsson skrifar
Raul Castro Kúbuforseti ávarpaði þjóð sína fyrr í vikunni.
Raul Castro Kúbuforseti ávarpaði þjóð sína fyrr í vikunni. Vísir/AFP
Raul Castro Kúbuforseti hefur fagnað sögulegum sáttum Bandaríkjastjórnar og Kúbu en leggur jafnframt áherslu á að Kúbumenn muni ekki breyta stjórnarfari í landinu. Castro segir jafnframt að Kúba standi frammi fyrir „langri og erfiðri baráttu“ áður en Bandaríkin munu aflétta viðskiptabanni sínu.

Barack Obama Bandaríkjaforseti kynnti á miðvikudaginn því sem hann lýsti sem nýjum kafla í samskiptum Bandaríkjanna og kommúnistaríkisins Kúbu. Sagði hann fyrirhugaðar breytingar þar vera þær mestu sem orðið hafa í samskiptum ríkjanna síðastliðin fimmtíu ár.

Castro ávarpaði þjóðþing landsins fyrr í dag og sagði að með tilkynningu Obama fyrr í vikunni hafi ein fyrirstaðan í samskiptum ríkjanna verið fjarlægð.

Castro sagðist opinn fyrir því að ræða viðtæk málefni við fulltrúa stjórnvalda í Washington, en lagði áherslu á að Kúba muni ekki falla frá sósíalískum lögmálum sínum. „Á sama hátt og við höfum aldrei farið fram á að Bandaríkin breyti stjórnkerfi sínu, förum við fram á að þeir virði okkar.“

Stjórnvöld í Kúbu og Bandaríkjunum hafa samið um gagnkvæma lausn fanga, auk þess að Obama sagðist vonast til að bandarískt sendiráð yrði opnað á Kúbu innan nokkurra mánaða.

Bandarískir þingmenn hafa sumir hótað því að stöðva sáttaferlið og koma í veg fyrir að viðskiptabanninu verði aflétt.


Tengdar fréttir

Bandaríkin aflétta einangrun af Kúbu

Rúmlega hálfri öld eftir að Bandaríkin lögðu viðskiptabann á Kúbu hafa tekist sögulegar sættir milli ríkjanna. Bandaríkjaforseti segir einangrunarstefnuna úrelta og aldrei hafa virkað.

Vilja koma í veg fyrir bætt samskipti

Repúblikanar eru óánægðir með ætlanir Barack Obama og Raúl Castró um að endurvekja strjórnmálasamban milli BNA og Kúbu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×