Enski boltinn

Arsenal mun reyna að kaupa Benzema í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Karim Benzema.
Karim Benzema. Vísir/Getty
Daily Telegraph sló því upp í morgun að Arsenal ætli að reyna að kaupa franska framherjann Karim Benzema frá Real Madrid í sumar.

Karim Benzema hefur átt flott tímabil með Real Madrid en hann á aðeins eitt ár eftir af samningi sínum við spænska stórliðið og það eykur líkurnar á því að félagið vilji selja hann.

Arsenal reyndi að fá Karim Benzema á sama tíma og félagið keypti Mesut Özil frá Real síðasta haust en spænska liðið vildi þá ekki missa Benzema enda nýbúið að láta frá sér Gonzalo Higuaín til Napoli auk þess að Frakkinn vildi ekki fara.

Arsenal þarf örugglega að borga Real Madrid í kringum 30 milljónir punda, 5,6 milljarða íslenskra króna, fyrir þennan 26 ára landsliðsframherja Frakka. Benzema hefur skoraði 24 mörk í öllum keppnum á þessu tímabili.

Blaðamaður Daily Telegraph hefur heimildir fyrir því að Arsenal ætli að ræða við Real um Benzema strax eftir úrslitaleik Meistaradeildarinnar.

Arsene Wenger er með auga á fleiri framherjum en meðal þeirra eru Mario Mandzukic hjá Bayern München, Diego Costa hjá Atletico Madrid og Josip Drmic hjá Bayer Leverkusen.



Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×