Sport

Krister Blær bætir og bætir metið - við það að ná pabba sínum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Krister Blær Jónsson með föður sínum og bróður.
Krister Blær Jónsson með föður sínum og bróður. Vísir/Daníel
Krister Blær Jónsson heldur áfram að bæta Íslandsmeti í stangarstökki í flokki 18-19 ára og 20-22 ára en Krister Blær er nú kominn upp í þriðja sæti yfir besta árangur Íslendings í greininni innanhúss.

Krister Blær setti nýjasta metið sitt á Áramóti Fjölnis sem fram fór í Laugardalshöll í gær en þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Frjálsíþróttasambandi Íslands.

Krister Blær hefur bætt sig ótrúlega með stöngina en hann átti best 3,80 metra fyrir ári síðan og hefur því bætt árangur sinn um 1,32 metra á tólf mánuðum.

Krister er einnig farinn að nálgast besta árangur pabba síns því strákurinn átti góðar tilraunir við 5,21 metra en felldi naumlega.

Aðeins methafinn Sigurður Tryggi Sigurðsson (5,31 metrar) og Jón Arnar Magnússon (5,20 metrar) faðir Kristers, eiga betri árangur í stangarstökki innanhúss.

Besta afrek mótsins átti Kolbeinn Höður Gunnarsson UFA, en hann sigraði í 200 metra hlaupi á 21,81 sekúndum sem gefa 1014 stig, en árangur Kristins Þórs Kristinssonar úr Umf. Samhyggð, 1:52,96 mínútur í 800 metra hlaupinu gefur 996 stig, þannig að mjótt var á mununum. Kolbeinn Höður sigraði einnig 60 metra hlaupið á 7,04 sek.

 

Guðni Valur Guðnason úr ÍR bætti eigið met og árangur 18-19 ára flokki þegar hann varpaði kúlunni 18,16 metra. Guðni hefur því bætt metið í aldursflokknum um 82 sentímetra í ár, en fyrra met æfingafélaga hans Sindra Lárussonar upphaflega var 17,34 metrar sett 2012.

 

Styrmir Dan Steinunnarson Umf. Þór Þorlákshöfn bætti eigið met í hástökki í 15 ára flokki pilta þegar hann sveif yfir 1,98 metra. Fyrra met hans var 1,93 metrar sett 13. desember síðastliðinn.


Tengdar fréttir

Sonur Jóns Arnars með met í stangarstökki

Krister Blær Jónsson, sonur tugþrautarkappans Jóns Arnars Magnússonar, setti í gær nýtt Íslandsmet í stangarstökki í flokki 18 til 19 ára á Innanfélagsmóti ÍR í Laugardalshöllinni.

Íslenska sveit­in komst upp um deild í Madeira

Ísland lenti í öðru sæti 2. deildar í Evrópubikarkeppni landsliða í fjölþrautum sem fór fram á Madeira um helgina. Íslenska liðið komst því upp um deild ásamt Rúmeníu sem sigraði deildina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×