Golf

Rory McIlroy í efsta sæti heimslistans

McIlroy fagnar sigrinum á FIrestone í gær.
McIlroy fagnar sigrinum á FIrestone í gær. AP/Getty
Það er greinilegt að Rory McIlroy er í sínu allra besta formi þessa dagana en í gær sigraði hann á Bridgestone Invitational sem fram fór á Firestone vellinum í Ohio.

Með sigrinum skaust McIlroy upp fyrir Adam Scott í efsta sætið á heimslistanum í golfi en hann sigraði einnig á Opna breska meistaramótinu sem fram fór í síðasta mánuði og verður að teljast líklegur til afreka á PGA-meistaramótinu sem fram fer um næstu helgi.

McIlroy sagði við fréttamenn eftir hringinn í gær að grunnurinn að sigrinum hafi verið hversu nákvæm og löng upphafshöggin voru hjá honum nánast alla helgina.

„Þegar að maður slær svona vel af teig þá fær maður mikið sjálfstraust sem hjálpar manni líka í stutta spilinu. Ég hef sjaldan slegið jafn vel og um helgina og ég gæti ekki verið ánægðari með afraksturinn.“

Þá segir McIlroy að það sé ljúft að vera kominn í efsta sæti heimslistans á ný.

„Mér líður eins og það sé mjög langt síðan ég var í efsta sæti heimslistans og það er frábært að vera orðinn efstur aftur. Vonandi næ ég að halda mér sem lengst á toppnum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×