Formúla 1

Sebastian Vettel til Ferrari

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Kimi Raikkonen og Sebastian Vettel verða líklega liðsfélagar á næsta ári.
Kimi Raikkonen og Sebastian Vettel verða líklega liðsfélagar á næsta ári. Vísir/Getty
Fjórfaldi heimsmeistarinn Sebastian Vettel hefur tekið ákvörðun um að yfirgefa herbúðir Red Bull þar sem hann hefur unnið alla sína titla í Formúlu 1.

Vettel sagðist einfaldlega vilja breyta til. Hann sagðist vera að fara frá stað sem væri erfitt að yfirgefa. Einnig ítrekaði Vettel að ákvörðunin hefði ekkert með gengi liðsins á tímabilinu að gera. Líklega væri þó tóninn annar ef hann væri á leiðinni að sínum fimmta titli með liðinu.

Ýtir þessi tilkynning undir orðróm um að Fernando Alonso sé á förum frá Ferrari yfir til McLaren, þó hefur ekkert fengist endanlega staðfest um það.

Vettel greindi liðsstjóra Red Bull, Christian Horner frá ákvörðun sinni í gærkvöldi.

„Hann sagði okkur frá þessu í gærkvöldi og hafði sínar ástæður fyrir því. Ég held að hann hafi ekki átt auðvelt með þessa ávörðun. En ef hann vill vera annars staðar þá ætlum við ekki að stöðva hann,“ sagði Horner.

„Frá og með 1. janúar verður hann keppinautur okkar. Hann verður Ferrari ökumaður,“ bætti Horner við.

Vettel hefur verið viðloðinn liðið í 15 ár. Líklega hefur Ferrari verið of freistandi kostur. Daniil Kvyat hefur verið staðfestur arftaki Vettel hjá Red Bull.

Marco Mattiacci, liðsstjór Ferrari vildi lítið gefa upp um málið.

„Ég hef verið upptekinn við annað, ef þeir (Horner og Helmut Marko) vilja tilkynna svona hluti fyrir okkur þá gera þeir það bara,“ sagði Mattiacci.

Hvernig rautt fer Vettel á eftir að koma í ljós, fær hann það sem hann vill hjá ítalska risanum? Er Vettel að leggja upp í endurreisnarverkefni með Ferrari, ævintýri sem gæti skilað öðru eins og því sem hann átti svo stóra þátt í hjá Red Bull? Það gæti verið það sem hann hugsar sér að gera.


Tengdar fréttir

Max Verstappen sá yngsti frá upphafi

Max Verstappen mun taka þátt í æfingu á föstudaginn fyrir japanska kappaksturinn. Hann verður þar með yngsti ökumaður sem hefur tekið þátt í keppnishelgi. En hann verður 17 ára í dag.

Ricciardo: Lokakeppnirnar munu sanna hvor er hraðari

Daniel Ricciardo hjá Red Bull telur að síðustu fimm keppnir tímabilsins muni skera úr um hvor ökumanna liðsins er hraðari, hann sjálfur eða fjórfaldi heimsmeistarinn Sebastian Vettel.

Vettel: Akstursstíll skýrir lélegt gengi

Ríkjandi heimsmeistari í Formúlu 1, Sebastian Vettel segir að ósamræmi milli aksturseiginleika RB10 bílsins og eigin akstursstíls útskýra hvers vegna illa hefur gengið í ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×