Innlent

Gáfu ráðuneytinu forláta borð að gjöf

Hanna Rut Ólafsdóttir skrifar
Borðið sem ræðismenn færðu utanríkisráðuneytinu vekur mikla lukku.
Borðið sem ræðismenn færðu utanríkisráðuneytinu vekur mikla lukku. Vísir/Pjetur
„Við erum alveg ofboðslega ánægð með gjöfina. Hugsunin á bak við borðið er svo falleg,“ segir Urður Gunnarsdóttir, fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytisins, um forláta timburborð sem ráðuneytið fékk að gjöf frá um 130 ræðismönnum Íslands frá 57 löndum sem sækja nú ræðismannaráðstefnu sem haldin er á vegum utanríkisráðuneytisins í Hörpu.

Borðið er gert úr timbri frá yfir 80 löndum en í því er meðal annars bútur úr Björgvinjarbryggju sem byggð var 1702, tré úr Himalaja-fjöllum og úr Amasonregnskóginum. Eiga bútarnir að endurspegla hinn fjölbreytta bakgrunn ræðismannanna.

Það var ræðismaður Íslands á Borgundarhólmi, Jørgen Hammer, sem fékk hugmyndina að því að láta gera borðið en það var húsgagnaarkitektinn Leifur Ebenezarson sem smíðaði það.

Urður segir að borðið verði notað sem eitt af aðalfundarborðum ráðuneytisins. „Það verður í sal sem við notum aðallega til að taka á móti erlendum gestum. Það verður gaman að geta sýnt þeim borðið, því að öllum líkindum er það með bút úr þeirra heimahögum.“

Að sögn Urðar er vinnan á bak við borðið mikil og undirbúningur langur. Það flóknasta var að þurrka timbrið og koma því saman sem og að safna því saman. Hugmyndin kviknaði um 2010 þannig að þetta hefur tekið heillangan tíma í undirbúningi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×