Lífið

Meira en að segja það að gerast prestur

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Það var ekkert eitt atriði sem hafði þessi trúaráhrif á mig heldur sú sterka tilfinning að vera hluti af einhverju miklu stærra, meira og æðra en ég sjálfur," segir  séra Davíð Þór
Það var ekkert eitt atriði sem hafði þessi trúaráhrif á mig heldur sú sterka tilfinning að vera hluti af einhverju miklu stærra, meira og æðra en ég sjálfur," segir séra Davíð Þór vísir/Valli
Það var frekar skrítið að vakna daginn eftir vígsluna og setjast bara við að þýða sama teiknimyndaþáttinn og áður, enda átti ég kannski ekki von á því að stór breyting yrði á mér. En ég er kominn með ákveðin réttindi og ákveðnar skyldur,“ segir séra Davíð Þór Jónsson um þau umskipti í lífi sínu að vera orðinn prestur.

Hann vinnur við þýðingar heima á Hjarðarhaga og ég er sest við eldhúsborðið en espressokannan kraumar á eldavélinni. Sérann rennir nýlöguðu kaffi í bollana. „Notarðu mjólk?“

Davíð Þór verður héraðsprestur í Austurlandsprófastdæmi og er nýkominn að austan þar sem hann var að undirbúa flutningana á svæðið, hitta væntanlegt samstarfsfólk og skipuleggja starfið.

„Það er meira en að segja það að taka þá ákvörðun að verða prestur,“ viðurkennir hann. „Maður afsalar sér ákveðnum borgaralegum réttindum því prestur er í raun alltaf í vinnunni, hvort sem hann er að sinna embættisverkum eða ekki og er skuldbundinn ákveðnum siðareglum.“

Þráin eftir að takast á við starfið hefur þó keyrt Davíð Þór áfram síðustu misseri því hann hefur sótt um tíu embætti sem hann gat hugsað sér að þjóna.

„Ég gerði mér grein fyrir að ekki yrði ráðinn nýútskrifaður, óvígður guðfræðingur í mörg þessara embætta en það er þjálfun að ganga í gegnum umsóknarferlið,“ segir hann.

Nefnir sem dæmi að fyrir prestskosningar á Snæfellsnesi hafi hann tekið sér frí úr vinnu í hálfan mánuð og náð að heimsækja þriðjung sóknarbarna, það hafi verið dýrmæt reynsla og áhugaverð.



„Ég tapaði með fimm atkvæðum. Auðvitað vonaðist ég eftir að verða kosinn en samt var ég ánægður með þennan mikla stuðning, hann blés mér þreki í brjóst.“

Býr að sviðsreynslunni

Davíð Þór var fræðslufulltrúi á Héraði árið 2012. Nú er búið að sameina starf fræðslufulltrúa og héraðsprests og fyrir utan að sinna æskulýðsstarfi verður hann í afleysingum og íhlaupavinnu fyrir aðra presta á svæðinu frá Álftafirði til Vopnafjarðar.



„Ég finn mig mjög vel við fræðslu. Hef verið að vinna í Vatnaskógi á fermingarnámskeiðum og líkar það vel,“ segir hann og kveðst þar búa að reynslu uppistandarans. „Að fá til sín 40 fermingarbörn og hafa klukkutíma til að segja þeim frá Biblíunni er áskorun. Þá grípur maður gömlu trikkin til að halda athyglinni.“

Þetta leiðir umræðuna að Radíusbræðrum, þeim Davíð Þór og Steini Ármanni Magnússyni sem voru býsna grófir í sínu uppistandi. Auk þess var Davíð Þór ritstjóri tímaritsins Bleikt og blátt á tímabili. Hvernig finnst honum að hafa þennan feril í bakpokanum nú?

„Radíushúmorinn var samsuða af því sem var heitast í útlöndum á þeim tíma en ekki komið til Íslands. Annars vegar hinn súrrealíski Monty Python-húmor og hins vegar sorakjafturinn sem Eddie Murphy og Andrew Dice Clay voru þekktir fyrir. Við tókum þessa strauma og hnoðuðum þeim saman.

Ég bý að þeirri reynslu að standa á sviði og hafa ofan af fyrir fólki. Þegar ég predikaði í messu á Egilsstöðum sótti ég einfaldlega í þá reynslu.

Ég hafði samið þrumuræðu út frá texta dagsins en presturinn las þá allt annan. Þegar sálmurinn milli textans og predikunar var hálfnaður gekk ég upp að altarinu og fékk lánaða Biblíuna hjá prestinum, fann textann sem ég ætlaði að predika út frá, talaði svo bara af fingrum fram og leiddi inn í hann áður en ég flutti mína predikun.

Ég hugsa að einhverjir hefðu kannski panikerað í þessum aðstæðum en þarna var dýrmætt að hafa reynslu af sviðsskrekk og að vera spontant fyrir framan fullt af fólki.“

Davíð Þór viðurkennir að prógramm þeirra Steins Ármanns hafi ekki verið fjölskylduvænt en það hái honum ekki í barna- og æskulýðsstarfi.

„Í Vatnaskógi þekktu krakkarnir mig fyrir að hafa talað fyrir Sigmar í Svampi Sveinssyni og leikið vonda karlinn í Astrópíu. Þeir hafa aldrei heyrt talað um Radíusbræður eða Bleikt og blátt. Það er bara fornaldarstöff fyrir þeim.

Ég tel fólk frjálslyndara og skilningsríkara en margur heldur. Það vill geta talað við prestinn sinn eins og mann og lagt sín spil á borðið. Hugsað – þarna er maður sem sjálfur hefur ýmislegt í farteskinu. Ég hef séð hann öðruvísi en í hempu og ég veit að hann fór aðra leið í þessa hempu en beint upp úr KFUM og í guðfræðina, blautur bak við eyrun. – Þetta hef ég fundið að hjálpar mér.“

„Ég ætla að hafa mig hægan og læra reglurnar til að byrja með," segir klerkurinn.Fréttablaðið/Valli
Trúarleg reynsla á sjónum

Davíð Þór fékk leiklistarbakteríu sem unglingur, sótti þrisvar um í Leiklistarskólanum og lenti jafnoft í lokahópnum án þess að komast inn. Þegar hann hafði lært guðfræði í tvö ár sló útvarpsþáttur sem hann var með ásamt Steini Ármanni, í gegn og leiklistardraumurinn opnaðist á ný. Hann elti þann draum en þrettán árum síðar var hann kominn aftur í guðfræðina.

„Ég fann að neistinn var kominn aftur og útskrifaðist 2011 sem kandidat. Í febrúar 2012 flutti ég austur á Seyðisfjörð, fór að vinna hjá kirkjunni og sannfærðist þar um að þetta væri það sem ég vildi gera,“ segir hann.

En hvað varð til þess að hann valdi þessa braut?

„Í fyrstu ætlaði ég ekkert í prestskap þegar ég skráði mig í guðfræði haustið 1991. Hafði verið mjög leitandi og mikið að pæla í andlegum og siðfræðilegum málefnum. Bjó úti í Svíþjóð árið 1990 í hippanýlendu þar sem ég var grænmetiskokkur á náttúrulækningasjúkrahúsi en festi ekki yndi í Svíþjóð, kom heim og fór á sjóinn einn vetur. Þar varð ég fyrir sterkri trúarlegri reynslu.“

Hann kveðst þó ekki hafa lent í beinum sjávarháska. „Auðvitað fengum við á okkur brot og háskinn er alltaf fyrir hendi á sjó, eins og kvikmyndatónlist í bakgrunni. Það var samt ekkert eitt atriði sem hafði þessi trúaráhrif á mig heldur sú sterka tilfinning að vera hluti af einhverju miklu stærra, meira og æðra en ég sjálfur, partur af sköpunarverkinu.“

Kata Jak sleit sambandinu

Nú er komið að því að forvitnast um einkalífið og þótt Davíð Þór sé einn heima þessa stundina kemst ég að því að hann á konu. Hún heitir Þórunn Gréta Sigurðardóttir og er frá Egilsstöðum.

Þórunn Gréta er tónskáld, útskrifaðist í janúar á þessu ári með mastersgráðu í klassískum tónsmíðum frá Tónlistarháskólanum í Hamborg og Davíð Þór bjó hjá henni þar úti í eitt ár. Nú er hún nýráðin organisti á Eskifirði. „Við gerum ráð fyrir að flytja til Eskifjarðar því við ætlum að reyna að komast af með einn bíl í vetur,“ segir hann brosleitur.

Þrjú börn og þrjú barnabörn færast Davíð Þór líka til tekna. „Ég á dóttur fædda 1983, þá var ég 18 ára. Hún býr í Kaupmannahöfn og er að læra landslagsarkitektúr, á mann og tvö börn. Svo eignaðist ég dóttur fædda 1990 og son fæddan 1991 með þáverandi eiginkonu minni Elínu Ellingsen en við skildum árið 1993.

Á sjö ára tímabili bjó Davíð Þór með Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri grænna.

„Við Kata kynntumst þegar við unnum saman í Gettu betur í sjónvarpinu. Það neistaði á milli okkar. Svo fór það eins og það fór og gat í rauninni ekki farið öðru vísi því ég varð smám saman veikari og veikari af alkóhólisma. Hún bar gæfu til að slíta því sambandi. Ári síðar var ég kominn inn á Vog.

Að þurfa að gera upp eigið líf og taka þá ákvörðun að láta það lúta handleiðslu guðs, eins og maður er fær um að skilja hann, varð til þess að glæða á ný áhuga minn á guðfræði og á verulegan þátt í að ég byrjaði aftur að stúdera hana. Ég þurfti að rifja upp trúarvitund mína og trúarlíf sem ég hafði drekkt í áfengismóðu. Þá var ég í tvö ár búinn að glíma við að laga líf mitt að nýjum andlegum lifnaðarháttum.“

Hratt skilnaðurinn þér í þá sjálfsskoðun? (Smá þögn)

„Ef ég fer að tala um einkalíf mitt á þeim tíma sem við Kata vorum saman er ég um leið að tala um einkalíf hennar og ég hef engan rétt til þess. Ég get sagt að skilnaðurinn lagðist ekki vel í mig en í raun og veru stend ég í þakkarskuld við Kötu fyrir að hafa slitið sambandinu þegar hún gerði það.

Ég fékk mjög lögmæta afsökun fyrir að sökkva mér í drykkjuskap en náði botninum og viðspyrnunni. Það var lífsreynsla.“

vísir/valli
Ekki trúboð innan fjölskyldunnar

Spurður út í trúarlegt uppeldi svarar Davíð Þór:

„Ég lærði helstu grundvallaratriðin. Var signdur áður en ég var settur í bolinn og kennt versið Nú er ég klæddur og kominn á ról. Ég var flest sumur til 14 ára aldurs hjá afa og ömmu og það var alin upp í mér sterk siðvitund frá blautu barnsbeini en ekki kirkjurækni.

Það er frekar í seinni tíð að ég uppgötva að fjölskylda mín er ákaflega trúrækilega sinnuð. Móðir mín er í kvennakirkjunni, pabbi og dóttir mín eru ásatrúar og eini bróðirinn minn er Vantrúarmaður.

Ekkert okkar lítur á það sem sitt hlutverk að stunda trúboð innan fjölskyldunnar en við bróðir minn ræðum mikið um heimspekileg og siðferðileg málefni. Þó svo hann hafi ekki fundið sínum lífsskoðunum farveg innan kirkjunnar þá gleðst hann yfir að ég hafi fundið mína köllun meðan ég virði hans afstöðu.Kirkjan hagar sér stundum eins og gömlu valdhafarnir sem verða móðgaðir og sárir þegar þeir fá ekki atkvæðin sem þeim finnst þeir eiga. En kirkjan á að iðka samtal við aðra og ekki móðgast og fara í vörn ef einhver vill fermast borgaralega eða standa vörð um það sem við höldum að við vitum um trúariðkun forfeðra okkar áður en þeir tóku kristni.“

En hvað finnst honum um Kristsdaginn sem haldinn var í Hörpu um síðustu helgi?

„Ég held að Kristsdagurinn hafi undirstrikað það sem Dagur vonar gaf til kynna í fyrra, að Þjóðkirkjan eigi að láta samkirkjulegt starf með bókstafstrúarfólki alveg eiga sig.

Auðvitað er gott að geta látið ágreining lönd og leið og snúa bökum saman um það sem við erum sammála um. En þegar frjálslynt og umburðarlynt kristið fólk er narrað á forsendum samkirkjulegra hugsjóna til að frábiðja sér sjálfsögð mannréttindi á borð við kvenfrelsi og kynfrelsi er betur heima setið en af stað farið.“

Ætlar ekki að velta um borðum

Davíð hefur unnið sjálfstætt við þýðingar síðustu ár. Gaf líka út skáldsöguna Orrustan um Fold fyrir tveimur árum og á aðra bók fullskrifaða. En nú tekur hann við nýja embættinu 1. nóvember og þyrfti að byrja fyrr.

„Síðustu helgina í október er æskulýðsmót þjóðkirkjunnar og fermingarnámskeið og leiðtoganámskeið í nóvember. Þetta allt eru prestarnir fyrir austan að skipuleggja upp í hendurnar á mér og í samráði við mig. Um leið og hausttörnin er búin kemur jólatörnin. Ég sé fram á að geta byrjað að draga andann upp úr áramótum.“

Aldrei er hlutverk presta vandasamara en á sorgarstundum fólks, það er Davíð Þór meðvitaður um.



„Ég hef töluverða reynslu af sálgæslu, segir hann. „Það kom mér á óvart þegar ég var fyrir austan hvað mikið var leitað til mín. En það sem ég hlakka mest til er að fá að móta fræðslu- og félagsstarf. Kirkjan stendur sig ágætlega í æskulýðsstarfi og líka félagsstarfi fyrir eldri borgara. Hún stendur sig ekki eins vel í að gera eitthvað fyrir kynslóðirnar þar á milli en mig langar að koma til móts við fólk sem hefur heimspekilegan og siðferðilegan áhuga á trúarlegum málefnum og opna því dyr inn í kirkjuna.“

Hann telur breytinga þörf á innra skipulagi kirkjunnar, þar vill hann auka almennt safnaðarlýðræði. „En ég ætla að hafa mig hægan og læra reglurnar til að byrja með,“ lofar hann. „Ég er ekkert að fara að velta um borðum á næstu prestastefnu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×