Enski boltinn

Gylfi ekki með Tottenham gegn Seattle | Á leið til Swansea?

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Gylfi er líklega á förum frá Tottenham
Gylfi er líklega á förum frá Tottenham vísir/getty
Enska úrvalsdeildarfélagið Tottenham og Seattle Sounders gerðu jafntefli 3-3 í æfingaleik í Seattle í Bandaríkjunum í gærkvöldi.

Gylfi Sigurðsson átti að byrja leikinn en hálftíma fyrir leik var tilkynnt að Tom Carroll tæki sæti hans í liðinu. Gefur þetta orðrómi um að Gylfi sé á leið til Swansea á nýjan leik byr undir báða vængi.

Lewis Holtby kom Tottenham yfir í leiknum strax á 11. mínútu með laglegu marki. Seattle jafnaði metin á 34. mínútu með marki Gonzalo Pineda úr vítaspyrnu.

Staðan í hálfleik var 1-1 og skömmu eftir að seinni hálfleikur hófst var staðan skyndilega orðin 2-2.

Osvaldo Alonso kom Seattle yfir með frábæru skoti á 50. mínútu og fimm mínútum síðar jafnaði Soldado metin með marki úr vítaspyrnu sem hann fiskaði sjálfur.

Á 79. mínútu komst Seattle aftur yfir. Varamaðurinn Tristan Bowen þar á ferðinni en mínútu síðar var þriðja vítaspyrna leiksins dæmd.

Varamaðurinn Iago Falque skoraði úr spyrnunni og jafntefli því staðreynd í fjörugum leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×