Körfubolti

Ólafur biðst afsökunar á ummælum sínum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ólafur Ólafsson í leiknum gegn KR í kvöld.
Ólafur Ólafsson í leiknum gegn KR í kvöld. Vísir/Valli
Ólafur Ólafsson, leikmaður Íslands- og bikarmeistara Grindavíkur í körfubolta, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann biðst afsökunar á ummælum sem hann lét falla eftir leik liðsins gegn KR í kvöld.

Ólafur mætti heitur í viðtal við Guðjón Guðmundsson á Stöð 2 Sport eftir leikinn sem Grindavík tapaði með 29 stiga mun, 87-58.

Hann segist hafa látið ummælin falla í bræði en viðurkennir að það sé engin afsökun. Hann eigi sem fyrirmynd yngra fólks að gera sér grein fyrir því að hann þurfi að vanda orð sín.

Yfirlýsing Ólafs:

„Fyrr í kvöld í viðtali við fjölmiðla eftir tapleik liðs míns við KR í úrslitum Íslandsmótsins lét ég mjög óvönduð og heimskuleg orð falla í tengslum við kvenfólk í körfubola. Ummæli mín voru sögð í mikilli bræði og eftir erfitt tap en það er þó engin afsökun.

Ég á að vita betur enda hef ég stutt kvennalið Grindavíkur dyggilega í allan vetur og veit að hæfileikaríkar konur spila körfubolta jafnt og hæfileikaríkir karlmenn.

Ég sem fyrirmynd yngri barna geri mér grein fyrir því að ég á að vanda orð mín er ég fer í viðtöl. Ég vil því biðja alla körfuknattleikshreyfinguna afsökunar á þeim orðum og þá sérstaklega kvenþjóðina sem spilar körfubolta.

Ólafur Ólafsson, leikmaður UMFG“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×