Innlent

Segir mál Ghasems lýsandi fyrir stöðu hælisleitenda

vísir/stefán
Um þrjú hundruð manns hafa skrifað undir áskorun þessa efnis að hælisumsókn Ghasem Mohammadi fái efnislega meðferð hér á landi.  Ghasem hefur nú verið í hungurverkfalli í rúma viku en efnt var til samstöðufundar fyrir framan Innanríkisráðuneytið í morgun.

Ghasem, sem er fæddur í Afganistan, var fluttur á sjúkrahús í gærmorgun en hann var þá orðinn mjög máttvana eftir hungurverkfallið sem staðið hefur yfir í átta daga. Hann sótti um pólitískt hæli hér á landi árið 2012 en umsókninni var hafnað á grundvelli Dyflinarreglugerðarinnar. Ghasem áfrýjaði málinu til Innanríkisráðuneytisins og bíður enn eftir úrskurði.

vísir/stefán
Benjamín Júlían er talsmaður undirskriftarlistans en hann segir að málefni hælisleitenda hér á landi séu í miklum ólestri.

„Núna í viku hefur Ghasem verið í hungur- og þorstaverkfalli og hann lifir enn vegna þess að honum hefur tvisvar sinnum verið skutlað á sjúkrahús þar sem hann hefur fengið blóðvökva í æð. Hans mál eins og margra hælisleitenda á Íslandi er í miklum ólestri. Hann þarf að fá efnislega málsmeðferð á Íslandi til að hælisumsóknin hans njóti sanngjarnar áheyrnar,“ segir Benjamín.

Hvað finnst ykkur um viðbrögð hins opinbera í þessu máli?

„Þau hafa ekki verið nein og er þess vegna ekki hægt að tala um mikil viðbrögð en það er svosem alveg í samræmi við málsmeðferðina hans hingað til. Hann hefur verið hérna í tvö ár en hefur ekki fengið nema eitt viðtal þar sem honum var tjáð að hann myndi ekki fá hæli hér á Íslandi vegna þess að Svíþjóð var búið að hafna honum og þess vegna þyrfti Ísland ekki að hlusta á söguna.“

Efnt var til samstöðufundar fyrir framan innanríkisráðuneytið í morgun vegna málsins.

Þetta mál, er það lýsandi að þínu mati fyrir stöðu hælisleitenda hér á landi?

„Þetta er mjög lýsandi. Eini munurinn er að hann hefur farið í hungur- og þorstaverkfall. Margir aðrir hælisleitendur hafa tekið til örþrifaráða. Þó nokkrir hafa framið sjálfsmorð á Íslandi. “

vísir/stefán
vísir/stefán



Fleiri fréttir

Sjá meira


×