Erlent

Luhansk að mestu endurheimt

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Rússneska bílalestin, sem Rússar segja eiga að flytja hjálpargögn til Úkraínu, hafði dögum saman beðið átekta við landamærin.
Rússneska bílalestin, sem Rússar segja eiga að flytja hjálpargögn til Úkraínu, hafði dögum saman beðið átekta við landamærin. Vísir/AP
Úkraínuher hefur að stórum hluta endurheimt borgina Luhansk úr höndum uppreisnarmanna. Einnig hefur Úkraínuher tekist að umkringja að mestu borgina Donetsk, sem uppreisnarmenn hafa haft á valdi sínu mánuðum saman.

Hörð átök í Donetsk síðustu dagana hafa kostað tugi manna lífið. Síðasta vetur bjó ein milljón manns í borginni, en um þriðjungur þeirra er flúinn.

Sameinuðu þjóðirnar segja að átökin í austanverðri Úkraínu, sem hófust um miðjan apríl, hafi kostað meira en tvö þúsund manns lífið. Um það bil 340 þúsund manns hafi flúið að heiman.

Angela Merkel Þýskalandskanslari hefur nú, ásamt Frank-Walter Steinmeier utanríkisráðherra sínum, tekið forystu í því að reyna að miðla málum milli Úkraínustjórnar og Rússa, sem Úkraínustjórn sakar um að aðstoða uppreisnarmenn ljóst og leynt.

Merkel hélt til Úkraínu á laugardaginn var, en Steinmeier tók á sunnudag á móti utanríkisráðherrum bæði Rússlands og Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×