Fótbolti

Cech: Ég gerði mistök í markinu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Petr Cech, markvörður Chelsea og tékkneska landsliðsins í knattspyrnu, var eðlilega kátur með sigurinn á Íslandi í undankeppni EM 2016 í gær, en með sigrinum náði Tékkland þriggja stoga forystu í riðlinum.

„Þetta var mjög erfitt. Ísland spilaði vel sem lið, var mjög skipulagt og erfitt að brjóta á bak aftur. Þegar við lentum undir varð þetta enn erfiðara, en við héldum áfram. Við vorum með leikáætlun og héldum okkur við hana. Það spiluðu allir mjög vel og við sköpuðum okkur færi,“ sagði Cech við heimasíðu UEFA.

Mark Íslands kom eftir langt innkast þar sem Cech tapaði háloftabaráttunni gegn Kolbeini Sigþórssyni, en með engan í markinu gat Birkir Bjarnason skallað boltann aftur fyrir sig á Ragnar Sigurðsson sem skoraði.

„Ég gerði mistök í markinu,“ viðurkennir Cech. „Við vorum samt búnir að skapa okkur færi og þurftum bara að koma boltanum í netið. Við þurftum að halda áfram að pressa og svo skoruðum við undir lok fyrri hálfleiks sem hjálpaði okkur mikið.“

„Í seinni hálfleik þurftum við bara eitt mark, en fyrsta markið sem við skoruðum var vendipunktur leiksins. Þá vorum við komnir aftur inn í leikinn og þurftum bara eitt mark til að vinna.“

Tékkland er með þriggja stiga forystu í riðlinum sem fyrr segir og með fullt hús eftir fjóra leiki. Liðið er nú í mjög góðri stöðu og líklegt til að tryggja sér farseðil á EM 2016.

„Ef við vinnum heimaleikina eigum við góðan möguleika á að vinna riðilinn sem okkur langar til að gera. En við höldum báðum fótum á jörðinni. Við erum búnir að vinna fyrstu fjóra leikina sem er frábært, en það eru erfiðir leikir eftir. Við verðum bara að fá fleiri stig en við erum komnir með núna,“ sagði Petr Cech.


Tengdar fréttir

Jón Daði: Kem eflaust út eins og skúrkurinn

Jón Daði Böðvarsson var skiljanlega vonsvikinn eftir 1-2 tap gegn Tékklandi í dag en hann skoraði óheppilegt sjálfsmark í leiknum sem reyndist vera sigurmark leiksins.

Klaufabárðar í Tékklandi

Íslenska fótboltalandsliðið tapaði sínum fyrsta leik í undankeppni EM 2016 í Plzen í Tékklandi í gærkvöldi en það var ekki bara klaufalegt sjálfsmark Jóns Daða Böðvarssonar sem varð strákunum að falli í Plzen.

Theódór Elmar: Er óánægður með eigin frammistöðu

Einstaklingsmistök gerðu það að verkum að leikskipulag íslenska landsliðsins gekk ekki upp í naumu tapi gegn Tékklandi í kvöld að mati Theódórs Elmars, leikmanns íslenska landsliðsins.

Umfjöllun: Strákarnir felldir í Tékklandi

Íslenska liðinu var kippt niður á jörðina á ný eftir drauma byrjun í undankeppni Evrópumótsins í 1-2 tapi gegn Tékklandi í Plzen í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×