Innlent

„Tilboðið er móðgun við kennara“

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Framhaldsskólakennarar segja nýtt launatilboð ríkisins vera móðgun - það sé verra en tilboð sem lagt var fram áður en verkfall skall á. Verkfall framhaldsskólakennara hefur staðið yfir í 10 daga og lausn virðist ekki í sjónmáli.

„Í gær fengum við annað tilboð sem við höfnuðum líka. Tilboðið var ívið verra en það sem við fengum 12. mars,“ sagði Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, fulltrúi í samninganefnd framhaldsskólakennara, á fjölsóttum fundi í Safamýri í dag.

„Við sögðumst ekki vera reiðubúin í frekari viðræður um vinnutímamat eða nokkurn annan hlut fyrr en að við fengjum skárri tíðindi af beina launaliðnum.“

Stefán Andrésson sem einnig á sæti í samninganefnd framhaldsskólakennara líkti stöðunni sem nú er upp við störukeppni. „Tilboðið í gær var eiginlega móðgun og raunlækkun frá tilboðinu 12. mars. Eftir allt sem við vorum búin að gera þá bjuggumst við einhverju meiru en þetta var alveg þveröfugt.“

Lausn virðist ekki í sjónmáli í kjaradeilu framhaldsskólakennara. Enn ber mikið á milli í viðræðum um launatölur og önnur stór deilumál eru óleyst. Verkfall framhaldsskólakennara árið 2000 stóð yfir í átta vikur.

Nánar í myndbandinu hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×