Innlent

Vilja stöðva sölu SodaStream vara á Íslandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Hörður/Stefán
BDS Ísland - sniðgönguhreyfing fyrir Palestínu hefur farið fram á við stjórnir Byko ehf. og Elko ehf. að fyrirtækin láti af öllum viðskiptum við ísraelsk fyrirtæki og hætti innflutningi á ísraelskum vörum. Samtökin sendu stjórnendum fyrirtækjanna bréf fyrir viku síðan, þar sem þau eru leiðandi í sölu á Soda Stream vörum á Íslandi.

Í bréfunum voru stjórnendur fyrirtækjanna hvattir til þess að hætta að selja SodaStream vörur „og sýna þannig ábyrga afstöðu og hverfa frá stuðningi við lögbrot stjórnvalda í Ísrael, en með því að selja SodaStream er verið að hagnast á landráni og aðskilnaðarstefnu Ísraelsmanna,“ segir í tilkynningu frá BDS Ísland.

Engin svör hafa borist frá stjórnendum Byko og Elko og því hefur hreyfingin sett af stað undirskriftarsöfnun og hvatt almenning til þess að senda stjórnendum fyrirtækjanna tölvupóst. Hægt er að skrifa undir og senda tölvupóst á síðunni snidgongumisrael.is.

Hreyfingin hvetur stjórnendur fyrirtækjanna til þess að bregðast við bréfinu og beiðninni sem þar er sett fram, en búast má við frekari aðgerðum ef viðbrögðin standa á sér.

Hér telur BDS Ísland upp ástæður fyrir því hvers vegna eigi að sniðganga SodaStream.Mynd/BDS Ísland
Í tilkynningu hreyfingarinnar segir að ein af verksmiðjum SodaStream sé staðsett í „landræningjabyggðinni“ Mishor Adomim og þar njóti fyrirtækið ákveðinna forréttinda á kostnað Palestínumanna.

„Fyrirtækið fékk ódýrt land og nýtur þess að fá vatn sem stolið hefur verið frá Palestínumönnum. Eyðilegging Ísraela á efnahag Palestínu hefur valdið því að margir Palestínumenn eru tilneyddir til þess að vinna í verksmiðjum Ísraela á Vesturbakkanum en skortur á reglugerðum um umhverfis- og vinnuvernd eykur áhættu fyrir starfsmenn.“

Tilkynningu BDS Ísland og bréf hreyfingarinnar til stjórnenda Byko má sækja hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×