Lífið

Þörf aðstoð fyrir ungt fólk með krabbamein

Vilja standa við bakið á ungu fólki sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þeirra.
Halldóra Víðisdóttir er formaður Krafts.
Vilja standa við bakið á ungu fólki sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þeirra. Halldóra Víðisdóttir er formaður Krafts. Vísir/Ernir
„Kostnaður getur hlaupið á hundruðum þúsunda sem ungt fólk hreinlega stendur ekki undir, er jafnvel nýkomið úr námi, með ung börn og er að byrja að fóta sig á vinnumarkaðnum. Kostnaður sjúklinga í heilbrigðiskerfinu hefur farið vaxandi síðastliðin ár, en ef við berum okkur saman við nágrannalönd okkar að þá stöndum við virkilega höllum fæti. Á Norðurlöndunum, í Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi þarf fólk ekki að borga krónu þegar það greinist með jafn alvarlegan sjúkdóm og krabbamein,“ segir Halldóra Víðisdóttir, formaður Krafts, félags ungs fólks með krabbamein, og aðstandenda þeirra.

Félagið stendur fyrir Styrktartónleikum í Norðurljósasal Hörpunnar þann 17. september næstkomandi. Í ár fagnar Kraftur 15 ára afmæli sínu og verður Neyðarsjóður Krafts stofnaður formlega á afmælisdeginum, 1. október. Hans hlutverk verður að standa við bakið á ungu fólki með krabbamein þegar kemur að kostnaði í sambandi við lyf, læknisheimsóknir og þess háttar.

Það sem hefur einkennt starfsemi Krafts í gegnum árin er jafningastuðningurinn sem meðlimir félagsins veita, en Kraftur starfrækir stuðningsnet undir handleiðslu sálfræðings.Ungt fólk með krabbamein og aðstandendur þeirra hafa því kost á að leita þangað eftir stuðningi frá aðila sem hefur verið í svipuðum sporum. Þetta þekkir Halldóra af eigin reynslu, en haustið 2011 missti hún systur sína eftir stutta en erfiða baráttu við sjúkdóminn. Mánuði áður en hún tók við sem formaður félagsins hljóp hún í Reykjavíkurmaraþoninu til styrktar Krafti. „Ég sá þarna tækifæri til að gefa til baka en eftir jafn erfiða lífsreynslu og að missa einhvern svona nákominn þá hafði ég mikla þörf fyrir það,“ segir Halldóra.

Eins og áður sagði verða tónleikarnir haldnir í Norðurljósasal Hörpu þann 17. september kl. 20.00. Allir sem fram koma þetta kvöld gefa vinnu sína og er Atlantsolía sérstakur styrktaraðili tónleikanna. Allur ágóði tónleikanna rennur óskiptur í Neyðarsjóð Krafts. Þeir sem fram koma á tónleikunum eru: Emilíana Torrini, Baggalútur, Amaba Dama, KK & Ellen og AbbaShow. Sérstakur gestur verður Ari Eldjárn og kynnir verður Sólmundur Hólm.

Miðasala fer fram á midi.is og harpa.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×