Enginn reikningur hefur borist frá norska hernum vegna 250 hríðskotabyssa sem afhent voru Landhelgisgæslunni. Viðræður við norska embættismenn standa nú yfir hvernig málið verður afgreitt. Þetta kemur fram í svari upplýsingafulltrúa gæslunnar við fyrirspurn Vísis.
Sjá einnig: Allt sem við vitum um byssumálið á 90 sekúndum
Landhelgisgæslan hefur litið á afhendingu byssanna sem gjöf frá norska hernum en upplýsingafulltrúi hersins hefur hinsvegar sagt að undirritaður hafi verið kaupsamningur upp á 11,2 milljónir króna vegna þeirra. Engin greiðsla hefur verið innt af hendi vegna samningsins, samkvæmt gæslunni.
Sjá einnig: Svona heyrist í MP5 byssu
Skotvopnin eru ennþá innsigluð á öryggissvæði á Keflavíkurflugvelli en tollgæslan innsiglaði vopnin vegna þess að ekki hafði verið greitt af þeim tolla og önnur innflutningsgjöld. Áður en það var gert fengu lögreglumenn að æfa sig að skjóta úr byssunum en til stendur að láta lögregluembætti landsins fá hluta af byssunum.
Byssurnar sem um ræðir eru af gerðinni MP5 sem skjóta 9mm skotum. Það er sama skotstærð og skammbyssur lögreglunnar og Landhelgisgæslunnar nota.

