Enski boltinn

Blind heldur öllum möguleikum opnum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Blind fagnar marki sínu gegn Brasilíu í bronsleiknum á HM.
Blind fagnar marki sínu gegn Brasilíu í bronsleiknum á HM. Vísir/Getty
Daley Blind, leikmaður Ajax, segist vera opinn fyrir því að ganga í raðir Manchester United.

Blind, sem var í stóru hlutverki hjá hollenska landsliðinu undir stjórn Louis van Gaal, núverandi þjálfara United, segist hafa heyrt af áhuga enska stórliðsins.

„Ég er ánægður hér í Amsterdam. En ef annað félag kemur inn í myndina þyrfti ég að hugsa málið,“ sagði Blind, sem var valinn besti leikmaður hollensku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili.

„Ég mun skoða alla kosti í stöðunni. En í augnablikinu er ég bara að hugsa um Ajax, en við munum sjá hvað gerist í næstu viku.“

Frank de Boer, þjálfari Ajax, vonast til að halda Blind hjá félaginu.

„Ég er sannfærður um að hann taki rétta ákvörðun. Hann hefur unnið fyrir því að fara til stærra félags.

„En ég held að það væri betra ef hann væri eitt tímabil til viðbótar í okkar röðum. Hann átti gott tímabil í fyrra en ég tel að hann geti bætt sig enn frekar hjá okkur,“ sagði de Boer, sem bætti við að Ajax væri ekki í stöðu til að neita góðu tilboði í Blind.

Blind spilaði alla leiki Hollands á HM, ýmist sem miðvörður, bakvörður, vængbakvörður eða miðjumaður.

Blind lék í hálftíma þegar Ajax vann 4-1 sigur á Vitesse Arnhem í fyrsta leik sínum í hollensku úrvalsdeildinni í gær.


Tengdar fréttir

Blind gæti farið til Barcelona

Umboðsmaður hollenska landsliðsmannsins Daley Blind segir að hinn fjölhæfi knattspyrnumaður gæti verið á leið til spænska stórliðsins Barcelona frá Ajax í sumar.

Kolbeinn kom inn á í sigurleik

Kolbeinn Sigþórsson lék með Ajax í dag, þrátt fyrir að hafa verið orðaður við brottför frá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×