Íslensk erfðagreining (ÍE) sendir í þessari viku yfir eitt hundrað þúsund Íslendingum boð um þátttöku í samanburðarhópi fyrir rannsóknir fyrirtækisins. Um er að ræða landsátak undir yfirskriftinni: „Útkall – í þágu vísinda“ sem kynnt var á blaðamannafundi í Hörpunni í dag.
„Árangur okkar byggist á þrennu: Þátttöku þjóðarinnar í rannsóknunum, samstarfinu við lækna og heilbrigðisstofnanir landsins og vísindamönnunum okkar sem eru óþreytandi snillingar við leitina að skýringum á muninum á heilbrigði manna og sjúkdómum,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Átakið er unnið í samstarfi við Slysavarnarfélagið Landsbjörg. Meðlimir björgunarsveitanna munu sækja gögnin heim til þátttakenda og ÍE styrkir Landsbjörg í staðinn með 2.000 krónum fyrir hvern þann sem tekur þátt.
„Með enn meiri þátttöku heilbrigðra Íslendinga aukast líkurnar á að vísindin finni úrræði til að glíma við sjúkdóma sem þeir eða ættingjar þeirra geta fengið síðar á lífsleiðinni.“
Yfir 120 þúsund Íslendingar hafa þegar lagt hönd á plóginn
Með átaki þessu hyggst ÍE efla rannsóknir sínar, en fyrirtækið hefur þegar fundið breytileika í erfðaefni mannsins sem tengjast áhættu á fjölda algengra sjúkdóma. Tugþúsundir Íslendinga hafa þegar svarað kallinu þegar samstarfslæknar ÍE hafa boðið fólki þátttöku í rannsóknum á einstökum sjúkdómum. Alls hafa fleiri en 120.000 landsmenn þegar lagt hönd á plóginn.
Hörður Már Harðarson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, fagnar átakinu.
„Slysavarnafélagið Landsbjörg er ein stærstu sjálfboðaliðasamtök þjóðarinnar og óvíst að nokkur annar aðili hefði bolmagn til að fara í svona stóra aðgerð sem felst í því að ganga á nokkrum dögum í flest hús á Íslandi,“ segir Hörður Már.
„Auk þess að leggja lið mikilvægum rannsóknum íslenskra vísindamanna þá getur Útkallið, ef það heppnast vel og fólk leggur þessu lið, reynst ein af stærsta fjáröflun félagsins.“
Gjaldgengir í rannsóknina eru Íslendingar eldri en átján ára sem hafa ekki tekið þátt í fyrri rannsóknum Íslenskrar erfðagreiningar. Eru þeir valdir með það fyrir augum að hópurinn gefi sem besta og breiðasta mynd af þjóðinni. Auk samanburðar við sjúklingahópa verður tíðni tiltekinna erfðabreytileika könnuð almennt meðal Íslendinga og samanburður gerður við aðrar þjóðir.
Boðsgögnunum fylgja nákvæmar upplýsingar um verkefnið, samþykkisyfirlýsingar, munnspaðar og leiðbeiningar um sýnatöku en þátttakendur taka sjálfir lífsýni úr munni sínum. Rannsóknirnar hafa hlotið leyfi Vísindasiðanefndar og Persónuverndar.
Í fararbroddi á heimsvísu í rannsóknum á tengslum erfða og sjúkdóma
Innlent