Innlent

Fjöldinn á skemmtiferðaskipum nálgast 100 þúsund farþega markið

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Skemmtiferðaskipin fara senn að skríða að landi í Reykjavík.
Skemmtiferðaskipin fara senn að skríða að landi í Reykjavík. Fréttablaðið/GVA
Áætlað er að samtals 89 skemmtiferðaskip hafi viðkomu í Reykjavík í sumar og að farþegar í þessum skipum verði á bilinu 95 til 98 þúsund. Aldrei hefur slíkur fjöldi skipa og farþega komið hingað áður.

Mikil stígandi hefur verið í komu farþegaskipa síðasta áratuginn. Samhliða hafa stærri skip en áður lagt hingað leið sína og þar af leiðandi hefur farþegum fjölgað mikið og koma nú tvöfalt fleiri með hverju skipi að meðaltali en fyrir tíu árum.

Árið 2003 voru skemmtiferðaskipin í Reykjavík 50 talsins og með þeim komu ríflega 31 þúsund farþegar. Í fyrra voru skipin 80 og farþegarnir yfir 92 þúsund, sem er metfjöldi farþega fram til þessa. Flest skip til þessa komu hins vegar árið 2008 eða 83 skip með samtals rúmlega 59 þúsund farþega.

Sem fyrr segir er áætlað að farþegarnir í ár verði allt að 98 þúsund, sem yrði sex prósenta fjölgun frá í fyrra. Fyrsta skipið kemur 19. maí en það síðasta 29. september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×