Innlent

„Hækkun á virðisaukaskatti á bækur fer illa saman við yfirlýsta stefnu stjórnvalda"

Stefán Árni Pálsson skrifar
Þórður Árni Hjaltested, formaður KÍ.
Þórður Árni Hjaltested, formaður KÍ. visir/daníel
Stjórn Kennarasambands Íslands mótmælir harðlega áformum stjórnvalda að hækka lægra þrep virðisaukaskatts úr 7% í 12% en þetta kemur fram í ályktun frá KÍ.

Þar segir að hækkunin muni óhjákvæmilega leiða til þess að verð á mat og öðrum nauðsynjavörum hækki umtalsvert, sem bitni helst á þeim sem minnst mega sín í íslensku samfélagi.

„Hækkun á virðisaukaskatti á bækur fer illa saman við yfirlýsta stefnu stjórnvalda um að bæta lestrarkunnáttu ungs fólks. Breytingin mun leiða til verðhækkunar á bókum sem mun án efa leiða til þess að framboð af íslenskum bókum dregst saman. Breytingarnar munu einnig auka útgjöld framhaldsskólanema til bókakaupa, sem voru allt of há fyrir.“

Stjórn KÍ mótmælir ennfremur þeim áformum stjórnvalda að greiða ekkert í sjóði VIRK endurhæfingar á ári komanda eins og þó er kveðið á um í lögum frá árinu 2012.

Þar með er framtíðarstarf VIRK í hættu og um leið er endurhæfing fjölda skjólstæðinga sjóðsins sett í uppnám. Stjórnvöld eru hvött til að standa við gerða samninga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×