Sport

Stressið kom Tinnu á óvart | Myndir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Daníel
„Það kom mér á óvart hversu stressuð ég var og ég átti í raun erfitt með að ná mínu besta fram,“ sagði Tinna Helgadóttir, þrefaldur Íslandsmeistari í badminton, að loknu Íslandsmótinu sem haldið var í Hafnarfirði um helgina. Tinna varð meistari í einliðaleik, tvíliðaleik og tvenndarleik en mesta spennan var í úrslitaleiknum gegn Margréti Jóhannsdóttur í einliðaleik.

Úrslitaleikurinn var spennandi en Tinna vann í tveimur lotum, 21-19 og 22-20. „Hún [Margrét] spilaði mjög vel og ég varð mjög stressuð. Í raun var ég heppin að hafa unnið,“ bætir Tinna við en sigrar hennar í öðrum greinum voru nokkuð þægilegir.

Tinna býr nú í Danmörku þar sem hún hefur nýlokið BA-námi í íþróttafræði og ensku. Hún hefur einnig starfað sem yfirþjálfari yngri flokka hjá Værlöse og keppir fyrir liðið í 1. deildinni í Danmörku.

„Ég á nú von á því að vera áfram úti,“ sagði Tinna sem hefur gengið vel í vetur. „Ég hef verið að spila og æfa mikið – mun meira en ég ætlaði mér.“

Tinna varð meistari í tvíliðaleik með Erlu Björgu Hafsteinsdóttur og keppti svo með bróður sínum, Magnúsi Inga, í tvenndarleik.

Kári Gunnarsson varð Íslandsmeistari í bæði einliðaleik og tvíliðaleik karla. Hann vann Atla Jóhannesson í einliðaleik en þeir félagar urðu svo saman meistarar í tvíliðaleik.


Tengdar fréttir

Kári varð titilinn

Kári Gunnarsson varð Íslandsmeistari í einliðaleik karla í badminton eftir spennandi úrslitaleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×