Innlent

Jólahefti Rauða krossins komið út

Stefán Árni Pálsson skrifar
vísir/aðsend
Rauði krossinn á Íslandi er kominn í jólaskap og hefur nú sent öllum landsmönnum árlegt jólahefti.

Í heftinu má finna merkispjöld og jólamerki sem geta reynst ómetanleg fyrir þau örlátu sem ætla sér að gefa jólagjafir, nú og einnig þá sem ætla sér að þiggja jólagjafir. Hvernig veistu annars hver á að fá hvaða pakka?

Með jólaheftinu fylgir einnig gíróseðill þar sem er að finna hóflega upphæð. Rauði krossinn hvetur fólk, í tilkynningu til fjölmiðla, sem sé aflögufært að styðja við mannúðarstarf með því að nota seðilinn eða nýta sér valgreiðslu í heimabanka.

Jólin eru hátíð ljóss og friðar en um leið eru margir sem eiga um sárt að binda á þessum árstíma. Rauði krossinn veitir fjölskyldum og einstaklingum um allt land aðstoð og stuðning fyrir og yfir jólatímann. Það er Rauða krossinum hjartans mál að allir Íslendingar geti haldið gleðileg jól.

Merkispjöld Rauða krossins í ár eru hönnuð af Auði Lóu Guðnadóttur, myndlistanema. Í list sinni leggur Auður áherslu á endurvinnslu gamalla muna með því að gefa þeim nýtt líf. Fyrir það hefur hún vakið verðskuldaða athygli og fellur list hennar einstaklega vel að grænum línum Rauða krossins. Auður stundar nám við Listaháskóla Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×