Sport

Ole Einar orðinn sá sigursælasti á ÓL - bætti met Dæhlie | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hinn fertugi Norðmaður Ole Einar Björndalen varð í dag sigursælasti íþróttamaður vetrarólympíuleikanna frá upphafi þegar hann hjálpaði boðsveit Norðmanna að vinna gull í blandaðri boðgöngu á Vetrarólympíuleikunum í Sotsjí í Rússlandi.

Björn Dæhlie vann tólf verðlaun (átta gull) á Vetrarólympíuleikum frá 1992 til 1998 en Björndalen er nú kominn með þrettán verðlaun þar af tvö gull á leikunum í Sotsjí.

Ole Einar Björndalen vann fyrstu grein sína á leikunum en var ekki búinn að vera alltof sannfærandi í síðustu þremur greinum sínum. Verðlaunin langþráðu duttu hinsvegar í hús í dag.  

Norska sveitin, skipuð þeim Ole Einar Björndalen, Emil Hegle Svendsen, Toru Berger og Tiril Eckhoff, kom í mark 32.6 sekúndum á undan tékknesku sveitinni en ítalska sveitin tók síðan bronsið.

Ole Einar Björndalen gekk þriðja sprettinn og Norðmenn voru í öðru sæti þegar hann tók við af Tiril Eckhoff. Hann gekk vel og klikkaði ekki á skoti ekki frekar en Emil Hegle Svendsen sem gekk síðasta sprettinn og tryggði norska liðinu gullið.

Svendsen var að vinna sitt annað gull á tveimur dögum en hann kom fyrstur í mark í 15 km göngunni í gær.

Það er hægt að sjá myndband frá göngunni hér fyrir ofan.

Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×