Innlent

Obama ánægður með nýjan forsætisráðherra Íraka

Mynd/AFP
Obama Bandaríkjaforseti segir að skipun Haider al-Abadi í embætti forsætisráðherra í Írak sé skref fram á við sem lofi góðu. Uppgangur herskáu samtakanna sem kalla sig Íslamska ríkið og ráða nú lögum og lofum á stórum landssvæðum í Írak og í Sýrlandi hafa aukið mjög á óvissuna um framtíð Íraks.

Við þetta bættust þrætur hjá stjórnmálamönnum landsins en Nuri al-Maliki, sem gengt hefur embætti forsætisráðherra í tvö kjörtímabil sóttist eftir því að fá að gera það áfram og var hann talinn hafa þingstyrk til þess. Forseti Íraks, kúrdinn Fuad Masum, var hinsvegar andsnúinn því að Maliki fengi að sitja áfram og í gær tilkynnti hann að Abadi hefði fengið stjórnarmyndunarumboðið.

Maliki er Sjía trúar og telja margir að óánægja Súnnía í Írak með störf hans hafi orkað sem vatn á myllu Íslamska ríkisins og gert þeim auðveldara fyrir í baráttu sinni. Obama sagði í ávarpi í gærkvöldi að lausn mála í Írak felist ekki í hernarðaraðgerðum Bandaríkjamanna, en þeir hafa gert árásir á bækistöðvar íslamistanna síðustu daga, heldur í því að Írakar sjálfir sameinist gegn ógninni, hvaða trúar sem þeir eru. Hann bætti því við að Írakskir stjórnmálamenn standi nú frammi fyrir afar erfiðu verkefni, sem sé að sameina þjóðina.

Útnefningu Abadis hefur verið fagnað víða en Maliki hefur heitið því að berjast gegn henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×