Erlent

Svíar ætla að viðurkenna sjálfstæði Palestínu

Atli Ísleifsson skrifar
Stefan Löfven kynnti nýja ríkisstjórn sína í morgun.
Stefan Löfven kynnti nýja ríkisstjórn sína í morgun. Vísir/AFP
Stefan Löfven, nýr forsætisráðherra Svíþjóðar, segir að sænsk stjórnvöld muni viðurkenna sjálfstæði Palestínu. Þetta kom fram í stefnuræðu Löfvens í sænska þinginu fyrr í dag.

Deilur hafa lengi staðið um samband Svíþjóðar og Palestínu. Árið 2012 sagði Carl Bildt, þáverandi utanríkisráðherra, að Svíar ættu ekki að viðurkenna sjálfstæði Palestínu. Þáverandi stjórnarandstaða mótmælti því harðlega og sögðu leiðtogar Umhverfisflokksins meðal annars að afstaða ríkisstjórnarinnar væri óskiljanleg.

Ný minnihlutastjórn jafnaðarmanna og Umhverfisflokksins var kynnt í morgun. „Deilu Ísraela og Palestínu er bara hægt að leysa með tveggja ríkja lausn,“ sagði Löfven.

Löfven tilkynnti jafnframt að að umsókn að NATO væri ekki á dagskrá. Einnig greindi hann frá því að mögulegt væri að sérstök lög yrðu sett árið 2016 um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja, þar sem þess verði krafist að 40 prósent stjórnarmanna verði konur.

Löfven skýrði frá því að sérstakt ráðherraembætti aðlögunarmála verði lagt niður, þar sem „leiðin inn í Svíþjóð og réttur til atvinnu og velferðar, sé málefni sem snerti alla.“

Þá sagði forsætisráðherrann að til stæði að koma upp sérstakri stofnun sem rannsaki rasisma. Einnig verði Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna að sænskum lögum. „Svíþjóð ætlar að tryggja réttindi minnihluta og unnið skal gegn rasisma í skólum,“ sagði Löfven.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×