Lífið

Með húðflúr af aríunni

Þórður Ingi Jónsson skrifar
Arían er sungin af Filippo Spánarkonungi.
Arían er sungin af Filippo Spánarkonungi. Valli
Íslenska óperan frumsýnir óperuna Don Carlo eftir Verdi í október en hún hefur aldrei verið færð á svið á landinu áður. Í sýningunni er óvenju fjölmennur kór eða 39 manns.

Meðal karlsöngvaranna í kórnum er ungur ítalskur söngvari að nafni Alessandro Cernuzzi en svo skemmtilega vill til að hann er einmitt með stórt húðflúr á bakinu af einni aríunni í óperunni.

„Þetta er millipartur aríunnar sem Filippo Spánarkonungur syngur,“ segir Alessandro, sem fékk sér húðflúrið fyrir fimm árum þegar hann var nemandi við Söngskóla Reykjavíkur.

Alessandro Cernuzzi segist heppinn fyrir að geta sungið í Íslensku óperunni.Valli
„Mér finnst þetta svo falleg tónlist að ég ákvað að fá mér húðflúr af þessari aríu,“ segir Alessandro en eftir að hafa lært í söngskólanum lærði hann undir handleiðslu Kristjáns Jóhannssonar óperusöngvara. Alessandro lærir nú söng til BA-náms við LHÍ en hann hefur búið á landinu í nokkur ár.

„Mér finnst það rosa fyndið að fyrsta reynslan af því að syngja á alvöru óperutónleikunum sé fyrir Don Carlo þar sem ég er með þetta húðflúr,“ segir Alessandro. „Þetta er bara frábær reynsla og ég er mjög heppinn að syngja hér í Íslensku óperunni. Ég er að vinna með frábærum tónlistarmönnum þannig að ég er mjög stoltur og þakklátur.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×