Viðskipti innlent

Hálfan milljarð í bætur vegna Kaupþingsrannsóknar

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Vincent Tchenguiz.
Vincent Tchenguiz.
Efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar (SFO), kemur til með að greiða íranska kaupsýslumanninum Vincent Tchenguiz þrjár milljónir punda, eða rúmlega hálfan milljarð króna í bætur, vegna rannsóknar á falli Kaupþings í Bretlandi. Bæturnar fær hann innan tveggja vikna. New York Times greinir frá.

„Ég er ánægður með að okkur skyldi hafa tekist að leysa þetta mál án aðkomu dómstóla. SFO harmar þau mistök sem gerð voru og gagnrýnd voru harðarlega af High Court í júlí 2012. SFO hefur breyst gríðarlega frá árinu 2011 og ég mun sjá til þess að þau mistök sem gerð voru fyrir þremur árum verði ekki endurtekin,“ sagði David Green, forstjóri SFO, vegna málsins.

Rannsókn SFO laut einkum að gríðarlega háum lánveitingum bankans til bræðranna Robert og Vincent Tchenguiz, fáeinum dögum fyrir fall bankanna. Báðir neituðu bræðurnir að hafa gerst brotlegir við lög.

Íslendingarnir sem handteknir voru vegna málsins, þeirra á meðal Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson stjórnarformaður og Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kaupþings Singer & Friedlander, og Guðni Níels Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri hjá bankanum, neituðu einnig sök. Rannsókninni var hætt í október 2012, meðal annars vegna mistaka í rannsókninni auk þess sem talið var að ekki nægar sannanir væru fyrir því að saknæmt athæfi hafi átt sér stað.

Kostnaður vegna rannsóknarinnar er sagður hafa verið 1,3 milljónir punda, eða um 260 milljónir króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×