Þórarinn Ingi Pétursson, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, segir að sauðfjárbændur vilji gjarnan sérmerkja kjöt sem kemur frá gæðastýrðum býlum. Það strandi á vilja sláturhúsanna sem hafi hingað til blandað kjöti saman án aðgreiningar.

Þórarinn segir að mikilvægt sé að neytendur komi kröfum sínum um merkingu á vörum á framfæri. „Sauðfjárbændur vilja koma til móts við neytendur eins og mögulegt er. Ef krafan frá neytendum kemur almennilega fram þá er ekkert annað í stöðunni en að bregðast við.“
Þeir bændur sem ekki fylgja gæðastýringu eru í minnihluta. Sérstakar greiðslur, rúmlega 156 krónur á kílóið, leggjast ofan á framleiðslu þeirra sem fylgja gæðastýringu og með þeim hætti hafa bændur verið hvattir til að taka þátt í kerfinu. Gæðastýringarálagið nemur um fjórðungi af tekjum sauðfjárbænda.
Þórarinn segir að þeir sem ekki fylgi gæðastýringu hafi ýmist ekki áhuga á því sem henni fylgir, svo sem aukinni skriffinnsku, eða uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar eru til að hljóta vottunina.

„Varan er metin í sláturhúsi gegnum kjötmat og eftirlit dýralækna. Ég hef ekki séð neinn halda því fram að það sé gæðamunur á afurðunum. Þetta snýst fyrst og fremst um að stuðla að betri búskaparháttum.“
Steinþór segir að engin umræða hafi verið um að merkja kjöt frá gæðastýrðum býlum sérstaklega. „Það er spurning hvað yrði gert við ógæðastýrt kjöt. Staðan er sú að þú færð enga verslun til að taka inn kjöt sem væri merkt ógæðastýrt.“
Tilgangur gæðastýringar að búa betur
Gæðastýringu í sauðfjárrækt var komið á með reglugerð árið 2000.
Það sem vegur þyngst í gæðastýringu er krafan um skynsamlega nýtingu beitilands. Við kaup á gæðastýrðu kjöti er því hægt að ganga að því vísu að við framleiðsluna hafi ekki verið gengið of nærri landinu með ofbeit.
Þess er krafist að bændur skili inn upplýsingum um lyfjanotkun og veikindi dýra sem og áburðarnotkun á tún og fóðurmagn til skepnanna.