Viðskipti innlent

Vill að sérstakur saksóknari beri vitni um hleranir

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hreiðar Már í Héraðsdómi Reykjavíkur þegar ákæran á hendur honum var þingfest.
Hreiðar Már í Héraðsdómi Reykjavíkur þegar ákæran á hendur honum var þingfest. Vísir/Pjetur
Lögmaður Hreiðars Más Sigurðssonar hefur farið fram á að sérstakur saksóknari, Ólafur Þór Hauksson, verði kallaður til sem vitni í frávísunarkröfu vegna þess sem lögmaður Hreiðars Más telur vera ólöglegar hleranir.

Hreiðar Már er einn þriggja ákærða í málinu, en auk hans eru þeir Sigurður Einarsson og Magnús Guðmundsson ákærðir. Þeim er gefið að sök að hafa stundað umboðssvik árið 2008, við lánveitingar félaga á Bresku jómfrúareyjum, en lánin hljóðuðu upp á 510 milljónir evra, sem eru um 78 milljarða króna.

Vitni í frávísunarkröfu

Klukkan tíu í morgun átti málflutningur að fara fram í frávísunarkröfu Hreiðars Más. Lögmaður hans, Hörður Felix Harðarson, fór fram á að vitni yrði kölluð til frávísunarkröfunnar. Meðal þeirra sem hann vill kalla til sem vitni eru áðurnefndur sérstakur saksóknari auk tveggja annarra manna; Bjarna Ólafs Ólafssonar, starfsmanns hjá embættinu, og Jóns Óttars Ólafssonar, fyrrum starfsmanns embættisins. Jón Óttar hefur tjáð sig opinberlega að lög hafi verið brotin við hleranir.

Hörður Felix sagði fyrir dómi að hann vildi leiða fram sannleikann í málinu, um hvort að hlustað hefði verið á trúnaðarsamtöl og sagðist hafa lagt fram gögn máli sínu til stuðnings. Hann sagði að eingöngu yrði rætt um hleranirnar, ekki efnistök ákærunnar.

Hörður Felix sagði að ekki væri tiltekið sérstaklega í lögum hvort að mætti kalla fram vitni í frávísunarkröfu og að slíkt ætti ekki að vera bannað.

Saksóknari talaði um hlustanir

Tungutak saksóknara, Björns Þorvaldssonar, og lögmanns Hreiðars Más var ólíkt. Lögmaðurinn talaði um hleranir en saksóknari um hlustanir.

Björn saksóknari taldi það ekki standast lög að vitni yrði leidd fram í frávísunarkröfunni og vísaði til Hæstaréttardóms máli sínu til stuðnings. Hann varpaði einnig fram þeirri spurningu af hverju allir starfsmenn embættisins væru ekki kallaðir til sem vitni í málinu, ef lögmaður Hreiðars Más ætlaði sér að fá fram allan sannleikann í málinu. „Engin lagaheimild heimilar vitnaleiðslur í frávísunarkröfu,“ sagði saksóknari orðrétt.

Dómari tók kröfu lögmanns Hreiðars Más til úrskurðar og segist ætla að kveða hann upp „á næstunni“. Hann tiltók ekki nákvæma tímasetningu á úrskurðinum.

Gert hafði verið ráð fyrir því að málflutningurinn tæki tvær klukkustundir, en vegna kröfunnar um að kalla til vitni í frávísunarkröfunni var ekki hægt að halda honum áfram í dag.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×