Innlent

Miklar skemmdir eftir utanvegaakstur við Landmannahelli

Bjarki Ármannsson skrifar
Eins og sést olli aksturinn talsverðu tjóni.
Eins og sést olli aksturinn talsverðu tjóni. Mynd/Ingibjörg Eiríksdóttir
„Við höfum eiginlega ekki séð annað eins og utanvegaaksturinn sem er búinn að vera í sumar. En ekkert jafnskelfilegt þessu.“

Þetta segir Ingibjörg Eiríksdóttir, landvörður á Suðurlandi, um bílförin sem hún kom að við Löðmundarvatn skammt frá Landmannahelli um helgina. Eins og sést á myndunum sem Ingibjörg tók er um talsvert tjón að ræða.

„Sem betur fer er fæst af þessu á grónu landi, þótt við séum alltaf að glíma við einhverjar línur í mosa. Ein slík er bara illa afturkræf,“ segir Ingibjörg. „Það er mjög súrt að þurfa að eyða heilu vinnudögunum og – vikum í þessa vinnu.“

Á förunum sést að ökumaður hefur farið út af veginum, keyrt nokkra hringi, og snúið aftur. Ingibjörg segir allt of mörg dæmi um slíka hegðun hjá ökumönnum.

„Á föstudaginn urðu jarðvísindamenn frá Náttúrufræðistofnun vitni að utanvegaakstri við Tjörvafell,“ segir hún. „Þar er grasi- og mosavaxin brekka og þar voru nokkrir að klappa og hrópa húrra á meðan hinir keyrðu í brekkunni. Manni finnst þetta hjákátlegt, en þetta er því miður raunin.“

Ingibjörg hvetur þá sem hafa einhverjar upplýsingar um skemmdirnar um helgina að hafa samband við landverði eða við lögregluna á Hvolsvelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×