Fótbolti

Gylfi: Gott að skora fyrsta markið

Ingvi Þór Sæmundsson á Laugardalsvelli skrifar
Gylfi fagnar marki sínu í kvöld.
Gylfi fagnar marki sínu í kvöld. vísir/anton
„Þetta var fínn leikur. Við byrjuðum þetta vel og það var gott að skora fyrsta markið,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson eftir 3-0 sigurinn á Tyrklandi í kvöld. Swansea-maðurinn sagðist hafa átt von á meiru frá tyrkneska liðinu í leiknum.

„Ég bjóst við Tyrkjunum mun sterkari fram á við. Þeir sköpuðu sér mjög lítið og það hvernig við lögðum upp með að verjast þeim gekk upp. Við ætluðum að falla aðeins til baka og það gekk mjög vel.

„Og eftir að við komumst í 2-0 þá fórum við Aron (Einar Gunnarsson) sjaldnar fram. Við vissum að leikurinn var svo gott sem unninn og þéttum okkur inni á miðjunni,“ sagði Gylfi sem hefur byrjað tímabilið frábærlega með Swansea.

„Ég bæti mig með hverjum leiknum sem ég spila og ég nýt þess að spila fyrir aftan framherjann hjá Swansea. Þetta hefur gengið mjög vel hingað til,“ sagði Gylfi sem hlakkar til leiksins gegn Chelsea um hæstu helgi.

„Já, þetta verður mjög spennandi. Það yrði gott að ná stigi í þeim leik. Við höfum farið vel af stað og viljum halda þessu góða gengi áfram.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×