Lífið

Aukaleikarar í Skaupinu fá 1500 krónur á tímann

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Silja getur lítið sagt um Skaupið.
Silja getur lítið sagt um Skaupið. vísir/ernir
„Já, við völdum þessa dagsetningu því hún er svo töff,“ segir leikstjórinn Silja Hauksdóttir á léttum nótum. Hún leikstýrir Áramótaskaupinu í ár en tökur á því hefjast þann 11. nóvember næstkomandi, eða 11.11. Silja segir að tökur standi yfir í rétt rúmlega þrjár vikur.

„Svo eigum við inni viðbragðstíma þegar nær dregur ef eitthvað svakalegt gerist,“ segir hún og bætir við að tökur fari mest megnis fram á höfuðborgarsvæðinu.

Byrjað er að auglýsa eftir aukaleikurum í Skaupið og geta þeir sem hafa áhuga haft samband við umboðsskrifstofuna Snyrtilegur klæðnaður. Óskað er eftir fólki á öllum aldri og er tímakaupið fimmtán hundruð krónur.

Tökudagar fyrir aukaleikara í Skaupinu geta orðið allt að sjö klukkustunda langir, sem þýðir 10.500 krónur í dagslaun. Er það talsvert hærra en gengur og gerist fyrir aukaleikara sem fá vanalega í kringum fimm þúsund krónur fyrir daginn.

Silja segir að talsverðan fjölda aukaleikara þurfi í stöku senur í Skaupinu en um aðalleikarana getur hún lítið sagt.

„Þetta er stór og föngulegur hópur gamanleikara sem hefur getið sér gott orð í gamanleik og er í þekktari kantinum, með mikla reynslu. Þetta verður kynngimagnað Skaup.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×