Skoðun

Verknám mikilvægur þáttur í betrun

Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar

Undanfarið hefur Fréttablaðið fjallað ítarlega um nám í fangelsum landsins. Allir viðmælendur blaðsins virðast sömu skoðunar um að nám sé besta leiðin til betrunar, minnki kostnað við fangelsiskerfið og fækki endurkomum í fangelsin. Þrátt fyrir það hefur staða námsráðgjafa við fangelsin nú verið skert úr því að vera 100% staða í að vera 50% starf.

Eins og kom fram í viðtali við Ingis Ingason, kennslustjóra á Litla-Hrauni, er hvort sem er til lítils að vera með námsráðgjafa ef of litlu fé er varið til kennslu í fangelsum. Nauðsynlegt er að þróa enn frekar námsframboð í fangelsunum og þá sérstaklega með starfsnám í huga, líkt og gert er á Norðurlöndunum.

Þá er mikilvægt að fangelsisyfirvöld semji við skólastofnanir um að þjónusta fangelsin, með sambærilegum hætti og Fjölbrautaskóli Suðurlands þjónustar fangelsin tvö á Suðurlandi. Umboðsmaður Alþingis benti á í drögum að nýlegri skýrslu sinni um Litla-Hraun að enn skorti þó á slíkar lausnir varðandi háskólanám, en að fyrirhugaður væri fundur milli fangelsisyfirvalda og menntamálaráðherra um lausn. Bendir umboðsmaður á í skýrsludrögum sínum að nám geti verið mikilvægur þáttur í endurhæfingu fanga.

Um tíma leit út fyrir að íslensk yfirvöld ætluðu sér að vera í fararbroddi á sviði betrunar með áherslu á uppbyggingu námsframboðs í fangelsum landsins. En forskotið sem Íslendingar höfðu um stund er löngu horfið, segir kennslustjórinn sem hefur séð um kennslu á Litla-Hrauni áratugum saman. „Við erum ekki lengur fremst í flokki,“ segir hann og bendir jafnframt á að yfirvöld í öðrum löndum séu fyrir nokkru búin að átta sig á hagkvæmni þess að nota nám sem betrun.

Fangar þakklátir

Helga Lind Hjartardóttir, námsráðgjafi Fjölbrautaskóla Snæfellinga, var líka í viðtali við Fréttablaðið. Hún sinnir föngum á Kvíabryggju í sjálfboðavinnu, á leiðinni heim eftir vinnu. Það eru fleiri dæmi um slíka góðvild í garð þess mikilvæga starfs sem nám í fangelsum svo sannanlega er. Fyrir það eru margir þakklátir enda hefur það hjálpað mörgum að takast á við lífið eftir afplánun í fangelsi.

Inga Guðrún Kristjánsdóttir, uppeldis- og menntunarfræðingur, sem rannsakað hefur nám í fangelsum, sagði svo í viðtali við blaðið að við hreinlega stæðumst ekki kröfur alþjóðasamfélagsins, sem við hefðum skuldbundið okkur til. Undir þetta tekur Ingis Ingason, kennslustjóri á Litla-Hrauni. Það verður ekki mikið sterkara að orði kveðið, og full ástæða til að taka heilshugar undir með þeim sem hafa tjáð sig með svo afgerandi hætti í viðtölum við blaðamann Fréttablaðsins.

Pólitísk stefnumótun í fangelsismálum hefur aldrei farið fram á Íslandi. Á fundi stjórnar Afstöðu með allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis á Litla-Hrauni í sumar var lagður grunnur að slíku samtali. Það sem meira er, það virtist sem samhljómur væri hjá stjórnmálamönnunum um mikilvægi þess að þeir mótuðu sjálfir stefnu í málaflokknum.

Umfjöllun Fréttablaðsins að undanförnu um mikilvægi náms sem lið í að fækka endurkomum í íslensk fangelsi væri gott innlegg í slíka stefnumótun.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×