Innlent

Geðsjúkir fangar bíða enn eftir lækni

Vísir/Pjetur
Enginn geðlæknir starfar á Litla Hrauni og hefur ekki gert síðasta hálfa árið. Umboðsmaður Alþingis birti drög að skýrslu í október þar sem hvatt er til ýmissa úrbóta í heilbrigðisþjónustu við fanga. 
 
Heimsókn Umboðsmanns Alþingi í fangelsið Litla-Hrauni var liður í athugun á því hvort aðstæður í fangelsinu, aðbúnaður fanga og verklag við ákvarðanatöku um réttarstöðu þeirra samrýmist ákvæðum stjórnarskrárinnar, Mannréttindasáttmála Evrópu, gildandi laga og reglugerða um fullnustu refsinga auk meginreglna stjórnsýsluréttar.

Um hálfu ári síðar kom út skýrsla þar sem kallað var eftir úrbótum, meðal annars á geðheilbrigðisþjónustu.

Réttur geðsjúkra fanga til heilbrigðisþjónustu er sá sami og gildir um þá sem fyrir utan eru. Um þetta er skýrt kveðið í 22. gr. fangelsislaga en þar segir: „Í fangelsum skulu fangar njóta sambærilegrar heilbrigðisþjónustu og almennt gildir, auk þeirrar sérstöku heilbrigðisþjónustu sem lög og reglur um fanga segja til um."

Fangar á Litla Hrauni njóta samkvæmt þessu ekki sömu réttinda og almenningur. Þar sem ekki hefur verið starfandi geðlæknir þar um tæplega hálfs árs skeið.

Það er Heilbrigðisstofnun Suðurlands sem heldur utan um geðlæknaþjónustu fangelsins og fær til þess ákveðið fjármagn frá Heilbrigðisráðuneyti. Í samtali við fréttastofu segir framkvæmdastjóri lækninga á HSu að ekki sé neinn starfandi geðlæknir á vegum stofnunarinnar almennt fyrir allt Suðurland. 

Það sé þó auðveldara fyrir geðsjúka utan fangelsis að leita sér þjónustu í höfuðborginni. En líkt og gefur að skilja njóta fangar ekki þeirra réttinda. 

Hann segir jafnframt að þeir geðlæknar sem starfað hafa í fangelsinu vilji fleira starfsfólk til aðstoðar sökum álags. Það séu því einfaldlega ekki til peningar til að mæta kröfum nútíma geðlækninga. En unnið sé þó að úrbótum. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×