Erlent

35 sagðir látnir í Kænugarði

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Særður mótmælandi borinn í burtu frá átakasvæðinu.
Særður mótmælandi borinn í burtu frá átakasvæðinu. vísir/getty
Að minnsta kosti 35 féllu í átökum milli mótmælenda og lögreglu í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, í nótt og í morgun. Þetta fullyrðir fréttavefur Kyiv Post.

Átökin héldu áfram þrátt fyrir að samið hefði verið um vopnahlé í gær, og köstuðu mótmælendur bensínsprengjum í átt að lögreglumönnum. Að sögn BBC er tala látinna sögð á bilinu 17 og 21.

David Bowden, fréttamaður Sky News, greinir frá því að leyniskytta hafi skotið niður fjölda mótmælenda og segir hann útlit fyrir að dagurinn í dag verði blóðugur.

Aðfaranótt miðvikudags féllu 26 í átökunum og hundruð manna særðust. Viktor Janúkovítsj, forseti Úkraínu, hefur lýst yfir þjóðarsorg í landinu í dag.

Utanríkisráðherrar Frakklands, Póllands og Þýskalands hafa ekki yfirgefið landið, eins og BBC greindi frá í morgun, og stendur nú yfir fundur þeirra með Janúkovítsj forseta.

Þá greinir BBC frá því að úkraínskir íþróttamenn hafi yfirgefið Sotsjí í Rússlandi, þar sem Ólympíuleikar fara nú fram, vegna ofbeldisins í heimalandinu.

Evrópusambandið íhugar nú aðgerðir gegn yfirvöldum í Úkraínu og munu utanríkisráðherrar ESB-landanna funda vegna ástandsins í dag. Þá þykir líklegt að Úkraína verði beitt einhvers konar viðskiptaþvingunum.

Myndband frá Reuters frá því snemma í morgun. Twitter-færslur um ástandið í Kænugarði. Bein útsending frá Sjálfstæðistorginu í Kænugarði.
Live streaming video by Ustream Twitter-færslur merktar #Kiev í rauntíma.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×