Innlent

Þúsundir á tjaldsvæðum norðaustanlands

Sveinn Arnarsson skrifar
Um þúsund manns gistu í Ásbyrgi í fyrrinótt og var tjaldsvæðið þétt skipað.
Um þúsund manns gistu í Ásbyrgi í fyrrinótt og var tjaldsvæðið þétt skipað.
Tjaldsvæði í Eyjafirði, Þingeyjarsýslum og austanlands eru þéttsetin ferðamönnum. Ferðaþjónustuaðilar á svæðunum tala um sprengingu á þessum tíma og hafa á sumum svæðum ekki tekið við eins miklum fjölda fólks í yfir áratug.

Fréttablaðið fór á stúfana og heyrði í umsjónarmönnum tjaldsvæða frá Eyjafirði og allt austur á Egilsstaði. Þeir höfðu allir sömu söguna að segja. Veðurblíðan sem nú ríkir á norðausturhorninu hefur haft það í för með sér að tjaldsvæðin eru mjög mikið notuð. Samtals gistu rúmlega tíu þúsund á tjaldsvæðunum í fyrrinótt sem verður að teljast nokkuð gott.

Í Vaglaskógi var tjaldað nokkuð þétt og töldu umsjónarmenn um 600 gesti hafa gist þar í fyrrinótt. Voru umsjónarmenn sammála um að þessi fjöldi hefði ekki sést í skóginum í háa herrans tíð. Um þúsund manns voru í Ásbyrgi þegar fréttamaður náði tali af umsjónarmönnum þar í þjóðgarðinum. Fregnir hafa borist af því að ferðamenn hafi þurft frá að hverfa vegna þess að ekki hafi verið hægt að finna þeim stæði á tjaldsvæðinu.

Um fimmtán hundruð manns voru til að mynda á tjaldsvæði Eyjafjarðarsveitar í Hrafnagili.

Veðrið hefur verið mjög gott á þessum slóðum síðustu daga og flykkjast ferðamenn norður í leit að sumrinu. - sa




Fleiri fréttir

Sjá meira


×